Akureyrarbær heldur íbúafundi í hverfunum
Íbúum Akureyrar gefst í næstu viku og áfram í haust tækifæri til að hitta bæjarstjórann og bæjarfulltrúa á hverfafundum í öllum skólahverfum bæjarins og koma þar á framfæri fyrirspurnum og ábendingum varðandi sitt hverfi með tvær meginspurningar sem þema.
- Hvað er gott við hverfið þitt?
- Hvað má bæta í hverfinu?
Fyrstu tveir hverfafundirnir verða haldnir í næstu viku og síðan haldið áfram í haust. Fyrsti fundurinn verður í Brekkuskóla miðvikudaginn 22. maí kl. 17 og annar í Síðuskóla fimmtudaginn 23. maí kl. 17.
Í frétt Akureyrarbæjar um fundina segir að Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri muni opna hvern fund með stuttu ávarpi en síðan brjóta íbúar umrædds hverfis spurningarnar tvær til mergjar. Bæjarfulltrúar verða í salnum og hafa það hlutverk að skrifa niður þær hugmyndir, umkvartanir, lof og last, sem fram koma í umræðuhópum íbúanna. Megináhersla verður lögð á að samtalið fari fram á forsendum bæjarbúa. Niðurstöðum fundanna, ábendingum og hugmyndum, verður komið í réttan farveg og á framfæri við stjórnendur sveitarfélagsins og pólitískt kjörna fulltrúa til frerkari úrvinnslu. Á hverjum fundi verður einblínt á nærumhverfið með íbúum hvers hverfis en að sjálfsögðu eru öll velkomin á alla fundina.