Fara í efni
Mannlíf

Aktóberfest í porti Viking brugghúss

Athafnasvæði Viking brugg við Furuvelli. Risatjald verður sett upp á bílaplaninu þar sem hátíðin Aktóberfest fer fram næsta laugardag. Mynd: Þorgeir Baldursson

Margir kannast við Októberfest, mikla bjórhátíð sem haldin er árlega í þýsku borginni München, síðari hluta septembermánaðar og fram í október. Íslendingar hafa tekið upp á því, eins og fleiri, að feta í fótspor Þjóðverja og um næstu helgi verður í fyrsta skipti haldið akureyrskt Októberfest – Aktóberfest

Þessi akureyrska hátíð, Aktóberfest, verður haldin í risatjaldi í portinu hjá Viking brugghúsi, neðst við Furuvelli, laugardaginn 11. október. Dagskráin hefst klukkan 17.00 og fram koma ýmsir tónlistarmenn: Hr. Eydís, Úlfur Úlfur, Gunni Óla úr Skímó, Guðni Braga með Partybingo & Karaoke + DJ Ayobe! að því er segir í tilkynningu.
 
Það eru Halldór Kristinn Harðarson og Davíð Rúnar Gunnarsson sem standa fyrir Aktóberfest í samstarfi við Viking brugg. Miðar eru seldir á tix.is og allar upplýsingar er að finna á Facebook síðu hátíðarinnar. Þar er hægt að taka þátt í gjafaleik en í vinning eru miðar á hátíðina, frátekin borð og veitingar.