Fara í efni
Íþróttir

Áhugaverð tryllitæki og spenna á morgun

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Úrslit ráðast á morgun á Íslandsmótinu í torfæru þegar síðasta keppnin, Motul torfæran, fer fram á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Spennan er mikil fyrir lokasprettinn því þrír eiga möguleika á Íslandsmeistaratitlinum og vert er að geta þess að rjómablíðu er spáð, sól og um 20 stiga hita.

Einn þeirra þriggja sem berjast um Íslandsmeistaratitilinn er heimamaðurinn Finnur Aðalbjörnsson sem mætti fyrr í dag ásamt fleirum með keppnisbílinn á Ráðhústorg til þess að vekja athygli á keppni morgundagsins og tryllitækin vöktu sannarlega athygli – ekki síst erlendra ferðamanna sem flestir voru af skemmtiferðaskipunum tveimur sem lágu við bryggju. 

Finnur Aðalbjörnsson í bíl sínum á Ráðhústorgi í dag. Með honum eru hinir Akureyringarnir í hópi keppenda, Þór Þormar, til vinstri,  og Gunnlaugur Gunnlaugsson.

Fyrir keppni morgundagsins er Austfirðingurinn Bjarnþór Elíasson efstur með 60 stig, Finnur er með 55 og í þriðja sæti er Sunnlendingurinn Atli Jamil Ásgeirsson með 52 stig.

Keppni hefst kl. 10.00 í fyrramálið. Miðasala er á tix.is en einnig verður hægt að kaupa miða á staðnum en aðgangur er ókeypis fyrir 12 ára og yngri. „Glaðningur fylgir með fyrstu 100 miðunum á tix,“ segir í tilkynningu frá keppnishöldurum, svo og að myndarleg verðlaun frá Motul verði veitt eftir keppnina.

Ómögulegt er að spá fyrir um sigur í torfæru því þar getur allt gerst. En stigagjöfin er sem hér segir:

  • 1. sæti – 20 stig
  • 2. sæti – 17 stig
  • 3. sæti – 15 stig 
  • 4. sæti – 12 stig
  • 5. sæti – 10 stig
  • 6. sæti – 8 stig
  • 7. sæti – 6 stig
  • 8. sæti – 4 stig
  • 9. sæti – 2 stig
  • 10. sæti – 1 stig