Áhugaverð sérstaða orkubúskapar heilans

Heilinn vegur aðeins um 2% af líkamsþyngd en notar um 20% af orku fólks, segir Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir í nýjum pistli og upplýsir að orkunotkun heilans sé furðu stöðug og „virðist lítið breytast hvort við erum í hvíld eða virkni, erum að hugsa eða skapa eða í leti.“
Ólafur segir heilann reyndar geta aukið eða minnkað orkunotkun ofurlítið eftir svæðum innan heilans, eftir því hvaða starfsemi er í gangi, og það sem af því leiði skýri annað af algengustu einkennum kulnunnar – athyglistruflun. „Leggja má fram þá tilgátu að aukin tíðni athyglisbrests (ADHD) gæti verið vegna aukins áreitis og álags.“
Þessi sérstaða í orkubúskap heilans skýri hins vegar ekki annað algengasta einkenni kulnunar sem sé þreyta. „Sennilegasta skýringin er að þreytueinkennin komi ekki frá heilanum sjálfum, heldur frá sjálfvirka taugakerfinu og spenntum vöðvum. Þessi einkenni eru þannig frá náttúrunnar hendi varúðarmerki um of mikið áreiti og álag á heilastarfsemina eða skort á líkamlegri hvíld og því er mikilvægt að við hlustum á þau og bregðumst rétt við.“
Pistill Ólafs Þórs: Orkuveita heilans