Fara í efni
Mannlíf

Afi Alberts óvænt í sviðsljósið í Genóa

Benedikt Guðmundsson, Albert Guðmundsson og Einar Logi Benediktsson settust að snæðingi í Genoa í hádeginu í gær.

Benedikt Guðmundsson komst óvænt í sviðsljósið í fyrradag þegar hann var í heimsókn hjá sonarsyninum, Alberti Guðmundssyni, sem leikur fótbolta og fær borgað fyrir það hjá liði Genóa í samnefndri borg á Ítalíu. Tilraun til treyjukaupa í verslun í borginni urðu að dýrmætri myndatökustund heimamanna því allir vildu mynda sig með afa Alberts.

Benedikt sagði á samfélagsmiðlum frá upplifun sinni þegar hann ætlaði að kaupa nokkrar Genoa-treyjur merktar Alberti. Hann hafi því miður orðið frá að hverfa því treyjur með nafni Alberts og númeri hafi verið uppseldar. 

„Þegar ég var bú­inn að segja fólk­inu hver ég væri, brjálaðist allt í búðinni og þeir sem voru að versla og staffið fóru að taka mynd af mér og biðja um mynd af mér með þeim. Mér leið eins og ég væri fræg­ur,“ skrifaði Baddi, eins og hann er kallaður nyrðra.

Þegar Akureyri.net heyrði í Badda í gærmorgun gat hann því miður ekki látið okkur í té myndir af sér með aðdáendum úr versluninni því hann átti sjálfur enga mynd af sér í búðinni, bara fólkið sem tók af honum myndir og hann þekkir hvorki haus né sporð á.

Baddi er í Ítalíuferð ásamt syni sínum, Einari Loga - Einsa Ben eins og við þekkjum hann. Þeir feðgar hafa stundum lent í svaðilförum á ferðalögum sínum erlendis, til dæmis þegar þeir fóru á EM 2016. Stundum lent í villum þegar þeir hafa ekið um Evrópu. Baddi setti einmitt á Facebook í fyrradag að „eins og venjulega þegar við feðgarnir erum á ferðalagi vorum við áttavilltir við komuna til Genoa.“

„Enduðum í göngugötu þar sem þjóninn á þessum fína veitingastað sá aumur á okkur og pantaði leigubíl fyrir okkur sem kom innan nokkurra mínúta og kom okkur á hótelið,“ skrifar Baddi, en líklega ýkjur af okkur hér á Akureyri.net að tala um svaðilfarir.


Frægir frændur. Einsi Ben og Albert Guðmunds í rólegheitum heima hjá Alberti - á 29. hæð með frábært útsýni yfir Genoa. Mynd: Benedikt Guðmundsson