Ættarþráhyggjan er garðyrkja og blómagleði

„Húsið er æskuheimili mitt, og þetta er garðurinn hennar mömmu,“ segir Kristín Helga Schiöth, garðyrkjukona í Huldugili á Akureyri. Hún tekur á móti blaðamanni ásamt manni sínum Ottó Elíassyni og sonum þeirra tveimur, Ólafi Elíasi, 11 ára, og Unnsteini Ægi, 6 ára. Maímánuður er nýhafinn og vorið er farið að ylja í garðinum, sem er vel skipulagður og margt farið að lifna við og jafnvel blómstra.
Kristín er ekki bara með græna fingur, heldur er hún gróðurvin sköpunar á svo margan hátt – en blaðamaður nýtur góðs af nýbökuðum kanelsnúðum og skonsum, þar sem Kristín hefur yndi af því að baka. Fjölskyldan býr ásamt föður Kristínar, Alfreð Schiöth, í Huldugili 2, en í mörg ár hefur garðurinn við þetta endaraðhús í Giljahverfinu verið litríkur og fagur á sumrin.
Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Kristínu Helgu, en seinni hlutinn verður birtur á morgun á Akureyri.net.
Á MORGUN – „RÆKTUN NÆRANDI FYRIR ANDLEGU HLIÐINA LÍKA“
Kristín og Ottó fylla sólstofuna í Huldugilinu af plöntum á vorin. Kristín segir að tímasetningar í garðrækt séu algjört lykilatriði. Mynd: RH
Tók við garðinum frá mömmu sinni
Blómin eru langflest fædd og uppalin af heimilisfólkinu sjálfu, en Kristín Helga erfði ræktunaráhugann í beinan kvenlegg um þónokkrar kynslóðir. Móðir hennar, Ólöf Elfa Leifsdóttir, var mikil blómakona og allt sem hún snerti iðaði af lífi. Garðurinn er hennar sköpunarverk, og Kristínu þykir bersýnilega vænt um að halda minningu móður sinnar á lífi með því að taka við garðinum eftir að Ólöf lést af völdum krabbameins árið 2019.
Reyndar er hún alltaf með mér þegar ég er að búa eitthvað til. Prjóna, sauma, baka. Allt það. Þessi sjálfsþurftarbúskapur er frá henni kominn
Kristín og mamma hennar, Ólöf Elfa. Með þeim á myndinni eru auðvitað blóm. Mynd úr einkasafni Kristínar.
Verður óhjákvæmilega fjölskylduverkefni
Kristín hefur dyggan stuðning frá Ottó, sem sér meðal annars um að setja upp gróðrarstöð í garðskúrnum. „Ég hef alveg þurft að stramma mig verulega af í sáningu í ár og sýna fyrirhyggju,“ segir Kristín Helga þegar hún sýnir blaðamanni uppskeruna í skúrnum. „Það er týpískt fyrir áhugagarðyrkjufólk að setja niður allt of mörg fræ. Svo er svo erfitt að drepa og henda sprotum og hætta á að maður endi með allt of mikið af plöntum.“ Ottó skýtur inn í að það hafi alveg verið þannig einhverntíman hafi verið blóm um alla íbúð, í öllum skotum, en magnið sem þau hjónin séu að vinna með í dag sé nokkurnvegin temmilegt.
Ólafur Elías er ennþá svo mikill Dani í sér að hann þarf að eiga dill á smörrebrauðið sitt!
„Strákarnir neyðast náttúrulega líka til þess að hafa áhuga á þessu, og þeir spyrja oft þegar líða tekur á veturinn hvort við ætlum að hafa þessa tegund eða hina,“ segir Kristín. „Þeir halda mér líka á tánum og láta strax vita ef ég er að missa boltann með að vökva eitthvað! Ég væri ekkert í þessu, nema af því að okkur finnst þetta öllum skemmtilegt og þetta býður upp á góða samveru. Þetta smitast yfir til þeirra hægt og rólega. Þeir finna það líka, eins og ég, hvað það er gott að fikta aðeins í moldinni. Við notum aldrei hanska. Það er líka sannað vísindalega, að það eru efni í henni sem er gott að komast í snertingu við.“
Ottó sér um uppsetningu og skipulag í garðskúrnum, en þar sinnir hann líka umfangsmiklu hjólaviðhaldi, sem er að verða að merkilega miklu áhugamáli. Mynd RH
Tilraunastarfsemin dönsk í ár
Kristín sáir alltaf einhverju sem hún veit að mun ganga vel og hún þekkir eins og lófann á sér, en henni þykir líka gaman að prófa nýjar tegundir. Tilraunastarfsemin í ár er dönsk, en fjölskyldan bjó í Danmörku frá 2013-2020 á meðan hún og Ottó voru í námi og þar leið þeim mjög vel. „Ég er til dæmis með Gasaníu hérna, einhverja skrautfífla, Aftanroðablóm, Drottningarfífil og fleira,“ segir hún.
Það eru einhverjar matjurtir í alningu hjá Kristínu, en mikill meirihluti eru blóm. „Ólafur Elías er ennþá svo mikill Dani í sér að hann þarf að eiga dill á smörrebrauðið sitt! Varðandi sumarblómin, þá segi ég sjálfri mér, að það sé svo hagkvæmt að rækta sumarblómin sjálf, en svo fer ég samt á rúntinn í gróðrarstöðvarnar á svæðinu og kaupi fleiri,“ segir Kristín og brosir. Hún viðurkennir að henni hafi þótt það svolítið óþolandi, þegar hún var að alast upp í Huldugilinu, þegar mamma hennar fyllti allt af blómapottum á vorin, en hlær að því að hún sé sjálf alveg eins í dag.
T.v. Mamma Kristínar, Ólöf, var mikil blómakona. T.h. Sálmaskráin í útför Ólafar var svolítið óvenjuleg, en hún var þakin myndum af blómunum hennar, alveg í hennar anda. Myndir úr einkasafni Kristínar.
Krabbamein setur strik í reikninginn
„Mamma greinist með brjóstakrabbamein 2013, það var strax greint sem fjórða stigs,“ segir Kristín. „Hún fékk líftæknilyf sem héldu krabbanum í skefjum og hún náði að lifa í fimm ár með sjúkdómnum. Síðasta árið var mjög erfitt, en þá fór krabbinn í höfuðið og taugarnar þannig að hún missti máttinn í höndum og fótum, sem er reyndar mjög óvenjuleg þróun á sjúkdómnum. Hún var mjög meðvituð allan tímann um það sem var að gerast, og jafnvel enn meira þar sem hún var iðjuþjálfi og þekkti líkamann mjög vel.“
Alltaf þegar ég er í blómunum, í garðinum hennar, þá er hún með mér
„Mamma fékk nægan tíma til að skipulegga eigin dauða, og það gerði hún mjög ítarlega,“ segir Kristín. „Hún undirbjó okkur eins og hægt var og skipulagði allt þetta praktíska sjálf. Meðal annars spurði hún okkur hvort að við vildum leiði til þess að vitja, og við hugsuðum öll málið; ég, bróðir minn og pabbi. Ég vissi það sjálf, og veit, að alltaf þegar ég brasa í blómum, þá er hún með mér. Reyndar er hún alltaf með mér þegar ég er að búa eitthvað til. Prjóna, sauma, baka. Allt það. Þessi sjálfsþurftarbúskapur er frá henni kominn.“ Kristín segir að það að fylla garðinn í Huldugilinu af blómum, gleðin sem því fylgir, sé nóg fyrir sig. Skemmst er frá því að segja að leiði Ólafar er hvergi að finna, en hún óskaði eftir því að verða brennd og ösku hennar var dreift í Eyjafirðinum, eins og hún vildi sjálf.
Þessir sólargeislar voru farnir að opna sig þegar blaðamaður heimsótti Kristínu, í byrjun maí. Mynd: RH
Vildi aldrei þvinga blómin
„Alltaf þegar ég er í blómunum, í garðinum hennar, þá er hún með mér,“ segir Kristín. „Þessa dagana er ég til dæmis svolítið að rífast við hana í hausnum, vegna þess að ég er að prófa nýtt í rabarbararæktun. Ég er að prófa að þvinga plönturnar og láta þær vaxa í myrkri inn í tunnu. Þetta er einhver aðferð sem á að láta rabarbarann vaxa hraðar og verða sætari og bleikari. Hún er brjáluð yfir þessu! Hún gat aldrei þvingað neinar plöntur, fékk til dæmis einu sinni Bonzai-tré, sem maður á að halda föstu í litlum potti og halda því litlu og sætu. Nostra við það. Þegar ég kom heim frá Danmörku það árið var þetta litla tré búið að breytast í runna í stofunni af því að hún gat ekki hugsað sér að leyfa því ekki að stækka.“
Ræktunarþörfin er í blóðinu
„Fólki finnst kannski heimaræktun vera eitthvað svona miðaldra, eða ömmuáhugamál,“ segir Kristín. „En það eru einmitt ræturnar, sem við erum að sækja í. Allar ömmur mínar, allar konur sem ég kem af, hafa verið ræktendur. Mamma. Mamma hennar. Föðuramma mín var þýsk, flóttakona frá austur-Þýskalandi. Hún var blómakona í öllum frumum. Mér finnst bara betra að fagna þessu í mér, frekar en að streitast gegn því, þó ég hafi reyndar reynt það tímabundið sem unglingur.“
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Kristínu Helgu, en seinni hlutinn verður birtur á morgun á Akureyri.net.
Á MORGUN – „RÆKTUN NÆRANDI FYRIR ANDLEGU HLIÐINA LÍKA“
Bergfléttan er í miklu uppáhaldi hjá Kristínu, og hún hlær að því þegar angi af fléttunni komst upp í þak og það stefndi í þakskemmdir. Ottó fannst nóg um þegar Kristín var efins um það hvort væri mikilvægara, bergfléttan eða þakið... Mynd: RH