Fara í efni
Mannlíf

„Æ,æ,æ, kemur nú jävla Öxnabrekkan“

„Æ,æ,æ, kemur nú jävla Öxnabrekkan,“ sagði Gunnar Danielsson, sænskur þáverandi eiginmaður Kristínar Magnúsdóttur móðursystur minnar, og andvarpaði. Hann var vanur breiðum malbikuðum vegum og hraðbrautum heima í Svíþjóð og kunni afskaplega illa við sig á þröngum og holóttum malarvegum Íslands. Þessi ummæli féllu um borð í bíl foreldra minna innst í Norðurárdalnum, annað hvort seint í sjöunni eða snemma í áttunni. Þið munið hvernig vegirnir voru þá vaxnir!

Þann hefst Orrablót dagsins, þar sem Orri Páll Ormarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, horfir um öxl eins hann gerir annan hvern föstudag fyrir lesendur akureyri.net.

Af mörgum vondum vegum leið aumingja Gunnari allra verst á Öxnadalsheiðinni, eða Öxnabrekkunni eins og hann kallaði óbermið, ekki síst í Giljareit og Skógahlíð, þar sem Heiðará rennur í djúpu og hrikalegu gili meðfram veginum. Á þeim kafla greip okkar maður bara um höfuðið, lokaði augunum og fór með bænirnar sínar. „Fadher wår som äst j himblom. Helghat warde titt nampn,“ og svo framvegis. Þetta er alveg ábyggilega útgáfan úr Biblíu Gustavs Vasa frá 1541 en Gunnar getur verið býsna forn í máli. Sérstaklega þegar að honum sækir ótti.