Fara í efni
Mannlíf

Aðventuvagninn færir jólagleði og hlýju

Ljósmyndir: Auðunn Níelsson.
Ljósmyndir: Auðunn Níelsson.

Hópur listamanna frá Þjóðleikhúsinu hefur verið á ferð um Akureyri á aðventuvagni sínum og kollegar þeirra frá Leikfélagi Akureyrar slógust í hópinn í gær, þegar ekið var á milli dvalarheimila og annarra staða þar sem fólk er innilokað vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrir utan húsin er flutt skemmtidagskrá í þeirri von að gleðja viðstadda og tekst sú ætlan alltaf ljómandi vel. Leikhúsfólkið hefur undanfarið skemmt íbúum á höfuborgarsvæðinu en nú lá leiðin norður og gerður var góður rómur að skemmtuninni. Sungin voru jólalög úr ýmsum áttum, flutt jólakvæði og stuttur leikþáttur. Sumir njóta dagskrárinnar af svölum húsa eða út um gluggann en að auki er dagskránni streymt þannig að þeir njóti líka sem ekki komast fram úr.

Leikararnir í vagninum voru Birna Pétursdóttir, María Pálsdóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hákon Jóhannesson og Lára Jóhanna Jónsdóttir. Á fimmtudaginn kom hópurinn fram bæði sunnanmegin og norðanmegin við Lögmannshlíð og við Hlíð, og í gær fyrir utan Bugðusíðu þar sem starf eldri borgara fer fram.

Ljósmyndir: Auðunn Níelsson.