Fara í efni
Menning

Aðventa og opnar dyr - einhver stelur jólum

Hvaða menningarviðburðir eru í boði á svæðinu þessa vikuna? Akureyri.net skellir í samantekt í byrjun hverrar viku, þar sem lesendur geta séð hvað verður á seyði og penslað inn í dagatalið.

 

Fjölskyldusýningin Jóla-Lóla snýr aftur á aðventunni. Sýnd í Samkomuhúsinu um helgina.

Leiksýningar

  • Jólaglögg – Glæný grínsýning um jólin og allt ruglið sem þeim fylgir, frá norðlenska atvinnuleikhópnum Umskiptingar. Samkomuhúsið, frumsýning föstudagskvöld 5. desember kl. 20. Einnig sýnt laugardags- og sunnudagskvöld. Í kynningu segir að Jólaglögg sé sketsasýning um skrítnar jólahefðir, yfirþyrmandi jólalög, gjafastress, smákökusyndir og fleira til.
  • Jóla-Lóla – Hin vinsæla fjölskyldusýning snýr aftur á aðventunni. Sýnd í Samkomuhúsinu laugardag 6. desember og sunnudag 7. desember kl. 13 og 15. Jóla-Lóla var tilnefnd sem barnasýning ársins 2024. Þetta er nýtt og skemmtilegt ævintýri fyrir börn á öllum aldri með söngvum eftir leikhópinn og tónlistarmennina Jóa Pé og Króla.
  • Jólakötturinn – Jólaævintýri í Freyvangsleikhúsinu. Laugardag 6. desember kl. 13. Jólakötturinn er frumsamið jólaævintýri eftir Jóhönnu S. Ingólfsdóttur í leikstjórn höfundar. „Höfundur byggir söguna á hinum alíslenska jólaketti eins og flestir þekkja hann, en blandar svo inní allskyns sögupersónum sem flestir kannast líka við,“ segir í tilkynningu frá Freyvangsleikhúsinu.

Norðlenski atvinnuleikhópurinn Umskiptingar með glænýja grínsýningu um jólin og allt ruglið sem þeim fylgir.

Tónleikar

      • Þorláksmessutónleikar Bubba Morthens – Menningarhúsið Hof, föstudagskvöld 5. desember kl. 20. Þetta er fertugasta árið sem Bubbi efnir til Þorláksmessutónleika á aðventunni. Þótt staðsetning tónleikanna hafi breyst í gegnum tíðina má alltaf stóla á það að Bubbi mætir með gítarinn og perlar sín þekktustu lög á kvöldsins festi og rýnir í samtímann af sinni einstöku snilld, segir í kynningu.
      • Jólaljós og lopasokkar – Menningarhúsið Hof, laugardagskvöldið 6. desember kl. 20. Söngkonan Jónína Björt Gunnarsdóttir ásamt glæsilegum hópi listafólks. Þetta eru kósý og hátíðlegir jólatónleikar með öllum okkar uppáhalds jólalögum í bland við minna þekkt jólalög, eins og segir í kynningu. Gestasöngvarar eru Una Torfa og Svavar Knútur.
      • Þegar Daði stelur jólunum – Daði Freyr mætir á Græni hattinn laugardagskvöld 6. desember kl. 21. Þegar Daði stelur jólunum þá útsetur hann sín uppáhalds jólalög í partýbúning fyrir sveittasta jólaball ársins, segir í kynningu tónleikanna.
      • Tólf jóla-tóna kortérið – Kortérslangir tónleikar á Listasafninu laugardaginn 6. desember kl. 15 og kl. 16. Jón Þorsteinn Reynisson mun í aðventuhúminu, fyrir milligöngu harmoniku sinnar, leiða okkur um tónlistarheim Sofiu Gubaidulinu, segir í kynningu. Hún er eitt mesta tónskáld harmonikutónlistar fyrr og síðar. Jón Þorsteinn leggur einnig tónsmíðaorð í belg með frumflutningi nýs tónverks eftir sjálfan sig.
      • Jólatónar flautusamspils TÓNAK – Minjasafnið, laugardag kl. 13:30. Í kynningu segir að hefð hafi skapast fyrir að flautusamspil Tónlistarskólans á Akureyri heimsæki Minjasafnið í byrjun desember og haldi tónleika með jólalögum í bland við önnur verk sem þeim er kært að spila á aðventunni.
      • Notaleg jólastund Guðrúnar Árnýjar – Glerárkirkja, laugardagskvöldið 6. desember. Söngkonan og píanóleikarinn Guðrún Árný með hugljúfa og einlæga jólatónleika ásamt strengjum og kórum. Tónleikar fyrir alla sem vilja brjóta upp hversdagsleikann, hlæja, njóta og hlusta á fallega jólatónlist, eins og segir í kynningu.
      • Jólatónleikar Kórs Glerárkirkju – Sunnudaginn 7. desember kl. 16. Flutt verður fjölbreytt jólatónlist úr ýmsum áttum. Gestur er Óskar Pétursson. Stjórnandi er Valmar Väljaots. Aðgangur ókeypis.
      • GDRN & Magnús Jóhann - Nokkur jólaleg lög - Menningarhúsið Hof sunnudagskvöld 7. desember kl. 20. Fyrir síðustu jól gáfu GDRN og Magnús Jóhann út nýja hljómplötu með jólalögum og á tónleikunum á sunnudaginn verða flutt lög af þeirri plötu, í bland við önnur þekkt lög tvíeykisins.

 

Sjaldséðar teikningar og skissur Jóhannesar Kjarval eru til sýnis á Listasafninu.

Listasýningar

  • Undir berum himni - Jóhannes Sveinsson Kjarval. Sýning á teikningum og skissum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals, Undir berum himni, í Listasafninu. Verkin á sýningunni hafa mörg hver ekki verið sýnd almenningi áður. Sýningin er unnin í samstarfi við Minjasafn Austurlands og flest verkanna eru í eigu þess. Sýningin stendur til 17. maí 2026.
  • Viðbragð - Samsýning fimmtán íslenskra og erlendra listamanna. Sýningin beinir athygli að skapandi viðbrögðum sem grundvallareiginleika lífs og að mikilvægi listarinnar þegar tekist er á við breytta heimsmynd vegna loftslagsbreytinga og annarra umhverfisógna, segir í kynningu frá Listasafninu. Sýningin stendur til 8. febrúar 2026.
  • Jólasýning Þúfu 46 - Samsýning listamanna í Þúfu 46, sem er til húsa í Gránufélagsgötu 46. Sýningin verður opin alla föstudaga til jóla kl. 16-18.
  • Sólstöður - Guðrún Sigurðardóttir. Verkin á sýningunni tengjast að formi og litum þannig að hekluð verk sem urðu til fyrst höfðu áhrif á tilurð síðari verka. Á sýningunni eru textílverk, olíumálverk og teikningar og efniviðurinn er fjölbreyttur. Meðal annars ullargarn, hörstrigi, silki, vatnslitapappír, olíulitir, naglar og rammar. Sýningin stendur til 22. febrúar 2026.
  • Himnastigi / Stairway to heaven – Barbara Long. Listasafnið á Akureyri. Sýningin stendur til 18. janúar 2026.
  • Öguð óreiða – Bergþór Morthens. Listasafnið á Akureyri. Sýningin stendur til 18. janúar 2026.
  • Femina Fabula – Sýndarveruleiki / Innsetningar. Sýningin stendur til 16. janúar 2026.
  • Lífsins gangur – Óli G. Jóhannsson. Listasafnið á Akureyri. Sýningin stendur til 16. janúar 2026.
  • DNA afa – Sigurd Ólason. Sýningin stendur til 16. janúar 2026.
  • James Merry - Nodens, Sulis & Taranis – Listasafnið á Akureyri. Sýningin stendur til 8. febrúar 2026.
  • Ýmir Grönvold - Milli fjalls og fjöru – Listasafnið á Akureyri. Sýningin stendur til 22. febrúar 2026.
  • Margskonar 2 - Valin verk fyrir sköpun og fræðslu - Listasafnið. Sýningin stendur til 8. feb 2026.

Listsýning Samlagsins sköpunarverkstæðis í Deiglunni um helgina. Sýnendur eru nemendur á aldrinum 6-16 ára.

Viðburðir

  • Jólamarkaður Skógarlundar – Hinn árlegi jólamarkaður Skógarlundar verður haldinn dagana 3. og 4. desember kl. 9-17:30. Til sölu verða myndlistaverk, tré- og leirvörur. Kaffi og konfekt í boði og posi á staðnum.
  • Höfundakvöld á Amtinu – Árlegt höfundakvöld á Amtsbókasafninu verður fimmtudaginn 4. desember kl. 20. Til leiks mæta sex rithöfundar til að kynna bækur sínar.
  • Rögnvaldur gáfaði sextugur – Kvöldstund með Rögnvaldi gáfaða á Græna hattinum föstudagskvöld 5. desember kl. 21. Þar mun hann segja gamansögur og brandara sem hann hefur heyrt á lífsleiðinni og man enn, flestar sögurnar og brandararnir eru þessvegna frá því í fyrra, eins og segir í kynningu.
  • Sýning sjö – Listsýning Samlagsins sköpunarverkstæðis. Deiglan, laugardag 6. desember og sunnudag 7. desember kl. 13-17. Sýnendur eru nemendur á aldrinum 6-16 ára á 12 vikna listnámskeiðum Samlagsins sköpunarverkstæðis. Öll hjartanlega velkomin að skoða afrakstur haustannarinnar. Þema haustannar var verndun náttúrunnar og farið var víða í innblástur fyrir verkefni, segir í kynningu.
  • Tendrun sorgartrésins – Laugardaginn 6. desember verður tendrað á Sorgartrénu á Akureyri. Gengið verið að trénu frá kaffihúsinu LYST í Lystigarðinum kl. 15:30. Hugmyndin með Sorgartrénu er að öll þau sem hafa misst ástvin geti sest undir tréð og minnst þeirra sem fallin eru frá. Sönghópur úr Gospelkór Glerárkirkju mun syngja nokkur lög.
  • Aðventusýning í Hlíðarbæ – Aðventusýning Norðlenskrar hönnunar og handverks laugardaginn 6. desember og sunnudaginn 7. desember kl. 11-17. Listiðnaður, vandaðar vörur milliliðalaust af hönnuðum, handverksfólki & sælkerameisturum.
  • Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit – Laugardaginn 6. desember kl. 13-17. Opið hús víða í Eyjafjarðarsveit. Gestum og gangandi boðið upp á aðventustemmningu og upplagt að krækja sér í umhverfisvænar jólagjafir, eins og gjafabréf og upplifanir, eins og segir í kynningu.
  • Gömlu íslensku jólafólin – Minjasafnið laugardaginn 6. desember kl. 14. Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingar á Ströndum rifja upp næstum því gleymdar sögur um íslensku jólafólin.
  • Aðventuhátíð Handraðans – Nonnahús, sunnudaginn 7. desember kl. 13-16. Félagar úr Þjóðháttafélaginu Handraðanum verða að störfum í Nonnahúsi. Jól verða undirbúin í anda fyrri tíðar með kertagerð, skorið út laufabrauð, föndrað og jólatréð skreytt og margt fleira.
  • Þegar Trölli stal jólunum – Hátíðarsýning Listdansskólans Steps Dancecenter í Hofi, sunnudaginn 7. desember kl. 12 og kl. 15. Ævintýraleg jólasýning þar sem dans og ævintýri sameinast í gleði og spennu. Listfagrir dansar lifna við ævintýrið um Trölla sem ætlaði sér að stela jólunum.
  • Ráðhústorg: Jólatorgið – Á Jólatorginu eru skreytt jólahús með fjölbreyttum söluvarningi sem minna á jólin. Opið kl. 15-18 allar helgar fram að jólum.
  • Vamos á Ráðhústorgi – Laugardag og sunnudag kl. 15-18. Jólastemning fyrir alla fjölskylduna - jólaglögg, heitt súkkulaði, fullorðinskakó, churros, jólapizza, ristaðar möndlur, kók og lakkrísrör. Jólakvikmynd á skjánum, teiknihorn fyrir börnin og hægt að skrifa bréf til jólasveinsins. Allar helgar kl. 15-18 fram að jólum.


Margt verður um að vera á Minjasafninu og í Nonnahúsi um helgina. Meðal annars Aðventuhátíð Þjóðháttafélagsins Handraðans, Amaro-stemmning á Minjasafninu, hægt að kíkja inn í jólafjallið og skoða híbýli Grýlu og hennar hyskis og margt fleira. Frítt á safnið fyrir fullorðna í fylgd með börnum í desember.


Endilega sendu póst á valur@akureyri.net ef að þú vilt koma þínum viðburði á listann. Viðburðurinn þarf að vera opinn öllum.