Aðgát skal höfð nærri menguðum jarðvegi

Framkvæmdir við Krossanesbraut skammt norðan við gatnamót við Sjafnarnes vöktu athygli vegfaranda sem taldi mögulegt að þar væri verktaki að hreyfa við eða bylta gömlum miltisbrandsgröfum. Akureyri.net hafði samband við Matvælastofnun (MAST) sem hefur á vef sínum lista og kort yfir staði þar sem vitað er að jarðvegur er mengaður, meðal annars vegna þess að þar hafi verið grafnar skepnur sem drápust af völdum miltisbrands.
Skjáskot af korti á vef MAST þar sem umræddur staður er merktur með appelsínugulum punkti. Hér er búið að teikna inn á með rauðu um það bil þar sem framkvæmdir og jarðrask eru í gangi, eins og sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni.
Sif Sigurðardóttir, héraðsdýralæknir norðausturumdæmis hjá MAST, hafði strax samband við þá sem málið varða til að tryggja að ekki verði hreyft við þeim stað sem um ræðir. Sif segir í skriflegu svari við fyrirspurn akureyri.net að ef jörðin er látin óhreyfð á þeim stöðum sem merktir hafa verið sé engin hætta. Ef hins vegar kæmi til þess að mokað yrði ofan af miltisbrandsgröf yrði að bregðast við með því að fjarlægja dýraleifar á öruggan hátt og koma þeim til förgunar, sótthreinsa öll tæki sem hafa komiðst í snertingu við dýraleifarnar og ganga frá svæðinu á þann hátt að engri hættu stafi af.
Skepnur drápust á Syðra-Krossanesi
Um umræddan stað við Krossanesbraut segir á vef MAST: „Miltisbrandsgröf að Krossanesi syðra. Á S-Krossanesi drápust bæði kýr og hross. Í síðasta tilfelli var kýrskrokkur brenndur með húð og innyflum en ekki er vitað um eldri grafir. Merki sett við veg á hæðarbrún upp af höfninni. Kannski eru öll hús og grafir horfin vegna bygginga og framkvæmda á svæðinu. Gröfin er merkt A232. Heimild: Miltisbrandur á Íslandi 1866-2004 eftir Sigurð Sigurðarson dýralækni.“
Á korti MAST yfir staði og svæði þar sem vitað er um mengaðan jarðveg má sjá að umræddur staður er á að giska 30 metrum sunnan við það svæði sem nú er unnið við í vegkanti Krossanesbrautarinnar.
HVAÐ ER MILTISBRANDUR?
Á vefnum doktor.is má finna upplýsingar um miltisbrand, en þar segir meðal annars:
Miltisbrandur er Íslendingum ekki með öllu ókunnur því hann kom fyrst til landsins á 19. öld og olli hér nokkrum búsifjum og sýkingum meðal manna. Sjúkdómnum veldur sýkill að nafni Bacillus anthracis. Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar, sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn, eru nefndir súnur (zoonosis).
Sýkillinn getur myndað dvalargró eða spora sem geta lifað áratugum saman í jarðvegi. Þegar sporar komast í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi.
Heimildir um urðun sýktra dýra á Íslandi eru ýmist ekki til eða ónákvæmar. Þess vegna er ekki loku fyrir það skotið að sjúkdómurinn eigi eftir að skjóta upp kollinum hér á landi að nýju, einkum við jarðrask þar sem sýkt dýr voru urðuð.
Á vísindavefnum er einnig ítarleg útskýring á miltisbrandi og þar kemur meðal annars fram nokkur hross hafi drepist við eyðibýli á Vatnsleysuströnd 2004 vegna sýkingar af völdum miltisbrands.
Miltisbrandsgröf merkt A232 er á að giska 30 metrum sunnan við það svæði þar sem nú eru framkvæmdir í vegkanti Krossanesbrautarinnar. Myndir: Skapti Hallgrímsson.