Fara í efni
Fréttir

Áberandi meira ofbeldi og harðnandi heimur

Ofbeldi hefur aukist mjög á Norðurlandi eystra á undanförnum árum. Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri segir í samtali við RÚV að lögreglan hafi borið vopn í 24 útköllum í fyrra sem sé margfalt miðað við árin á undan og í grein Kristínar Snorradóttur, teymisstjóra hjá Barmahlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis – sem birtist á Akureyri.net í dag að fleiri hafi leitað þangað nú um miðjan febrúar en fyrstu þrjá mánuði síðasta árs.

Páley segir að afbrotum hafi ekki aðeins fjölgað, heldur séu þau einnig alvarlegri. „Það sem er áberandi í þessu er meira ofbeldi og harðnandi heimur. Við erum með virkan fíkniefnaheim hérna og andlega veika einstaklinga. Við erum með glæpahópa, innlenda og erlenda,“ segir hún við RÚV.

Lögreglustjórinn segir að við ástandinu þurfi að bregðast og fjölga lögreglumönnum á Akureyri um minnst 12. „Staðan er þannig að við erum með jafnmarga í útkallinu á Akureyri eins og var hérna 1980,“ segir Páley. Sú staðreynd vekur óneitanlega athygli.

Kristín Snorradóttir segir í greininni sem vitnað var til: „Það sannarlega er upplifun mín að aukning sé á ofbeldismálum og þau verða harðari, svo þörfin fyrir þolendamiðstöðvar er mjög mikil enda sýna tölur í húsi að aukningin er gríðarleg, nú um miðjan febrúar erum við að tala um að málin eru orðin fleiri en á fyrstu þrem mánuðum síðasta árs.“

Vefur Bjarmahlíðar

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson