Fara í efni
Fréttir

Á þriðja tug smitaðir í Dalvíkurbyggð

Á þriðja tug íbúa í Dalvíkurbyggð eru smitaðir af Covid-19, skv. tilkynningu á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra í kvöld. Í gær vaknaði grunur um hópsmit og Dalvíkurskóli og tónlistarskólinn í bænum voru lokaðir í dag, eins og Akureyri.net greindi frá í morgun.

„Nú hefur Covid enn og aftur stigið niður fæti hér á Norðurlandi eystra svo eftir er tekið. Í gær vaknaði grunur um hópsmit á Dalvík og hófust þá strax aðgerðir varðandi sýnatökur þar í dag. Voru allir starfsmenn og nemendum grunnskólans, ásamt fleirum, skimaðir í dag og liggur skólahald niðri,“ segir á Facebook síðu lögreglunnar.

„Nú liggur fyrir að á þriðja tug íbúa á Dalvík og Dalvíkurbyggð eru smitaðir og er rakningateymið að vinna úr þeirri niðurstöðu. Hvetjum við alla íbúa á þessu svæði að gæta sérstaklega vel að sér og huga að smitvörnum og slá mannamótum á frest. Forsvarsmenn Dalvíkurbyggðar settu sig strax í morgun í samband við helstu vinnuveitendur á svæðinu og vöktu athygli þeirra á stöðunni og hvöttu þá til aðgæslu og á það sannarlega við áfram.

Þá hafa komið upp nokkur smit á Raufarhöfn og Kópaskeri og hvetjum við íbúa þar að gæta sérstaklega að sér og viðhalda smitvörnum að fremsta megni.

Aðgerðarstjórn LSNE mun funda um stöðuna í fyrramálið með hlutaðeigandi aðilum.“

Skólar á Dalvík lokaðir vegna Covid-19