Fara í efni
Íþróttir

500 manna stúka nær tilbúin við KA-völlinn

KA-strákarnir á æfingu í dag við nýju stúkuna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hópur sjálfboðaliða hefur unnið ötullega á KA-svæðinu upp á síðkastið við að gera allt klárt fyrir fyrsta heimaleik liðsins í Bestu deild Íslandsmótsins á nýja gervigrasvellinum. Þau tímamót verða á fimmtudagskvöldið þegar Framarar koma í heimsókn.

KA-menn hafa spilað einn leik á vellinum til þessa, þegar þeir sigruðu lið Reynis frá Sandgerði í bikarkeppninni, en nú tekur alvaran við. Til þess að leika megi á vellinum í efstu deild Íslandsmótsins þarf stúka að vera fyrir hendi og þegar Akureyri.net leit við í dag var einmitt verið að leggja lokahönd á að festa stóla í stúku sem reist hefur verið á milli KA-heimilisins og vallarins. Þar verða sæti fyrir rétt rúmlega 500 manns.

Allt að gerast á KA-svæðinu í dag; liðið á æfingu og unnið að því að festa síðustu stólana í stúkuna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson