Fara í efni
Mannlíf

2000 Kaleo-miðar seldust á tæpri mínútu

Kristján frá Djúpalæk, höfundur textans „Kvöldið er okkar“ – sem stundum er kallaður „Vor í Vaglaskógi“ – og Jökull Júlíusson, forsprakki hljómsveitarinnar Kaleo. Lag Jónasar Jónassonar við texta Kristjáns kom Kaleo á kortið hérlendis á sínum tíma. Lagið kom fyrst út á plötu með hljómsveit Ingimars Eydal árið 1966.

For­sala miða á tónlistarveislu hljómsveitarinnar KALEO í Vaglaskógi síðar í þessum mánuði var í dag og óhætt er að segja að áhuginn sé mikill. Þeir sem höfðu skráð sig á forsölulista fengu tækifæri til að kaupa miða að þessu sinni; 2.000 miðar voru í boði, opnað var fyrir söluna kl. 12:00 og áður en ein mínúta var liðin voru þeir allir seldir.

Almenn miðasala hefst á slaginu 12.00 í hádeginu á morgun, miðvikudag. Samkvæmt því sem tilkynnt hefur verið er leyfi fyrir alls 5.000 gestum á tónleikana. 

Hljómsveitin Kaleo var stofnuð í Mosfellsbæ árið 2012 og kom sér á kortið ári síðar með laginu Kvöldið er okkar – sem gjarnan er kallað „Vor í Vaglaskógi“, lagi sem hljómsveit Ingimars Eydal gerði vinsælt seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Meðlimir sveitarinnar hafa verið búsettir í Nashville í Bandaríkjunum síðustu ár og hefur Kaelo getið sér mjög gott orð vestanhafs.


Kaleo hefur ekki haldið tónleika á Íslandi í áratug en ákvað að slá upp mikilli tónlistarveislu í Vaglaskógi, með vísan í lagið góða. Tónleikarnir verða reyndar strangt til tekið ekki í Vaglaskógi heldur örskammt frá syðri mörkum skógarins, á stóru, opnu svæði sem tilheyrir jörðinni Mörk. Margir kannast við Lundsvöll, golfvöll í Fnjóskadal. Hann er skammt innan við svæðið þar sem tónleikarnir fara fram, eins og sjá má á kortinu.

  • Ásamt Kal­eo kom fram þennan dag Hjálm­ar, Jún­íus Mey­vant, Jack Magnet, Bear the Ant, Soffía Björg, Sigrún Stella og Svavar Knút­ur, og hugsanlegt er að listinn eigi eftir að lengjast.

Rétt er að benda á að ald­urstak­mark á tón­leik­ana er 16 ár, nema ungdómurinn sé í fylgd með for­eldr­um eða öðrum full­orðnum.