2000 Kaleo-miðar seldust á tæpri mínútu

Forsala miða á tónlistarveislu hljómsveitarinnar KALEO í Vaglaskógi síðar í þessum mánuði var í dag og óhætt er að segja að áhuginn sé mikill. Þeir sem höfðu skráð sig á forsölulista fengu tækifæri til að kaupa miða að þessu sinni; 2.000 miðar voru í boði, opnað var fyrir söluna kl. 12:00 og áður en ein mínúta var liðin voru þeir allir seldir.
Almenn miðasala hefst á slaginu 12.00 í hádeginu á morgun, miðvikudag. Samkvæmt því sem tilkynnt hefur verið er leyfi fyrir alls 5.000 gestum á tónleikana.
Hljómsveitin Kaleo var stofnuð í Mosfellsbæ árið 2012 og kom sér á kortið ári síðar með laginu Kvöldið er okkar – sem gjarnan er kallað „Vor í Vaglaskógi“, lagi sem hljómsveit Ingimars Eydal gerði vinsælt seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Meðlimir sveitarinnar hafa verið búsettir í Nashville í Bandaríkjunum síðustu ár og hefur Kaelo getið sér mjög gott orð vestanhafs.
Kaleo hefur ekki haldið tónleika á Íslandi í áratug en ákvað að slá upp mikilli tónlistarveislu í Vaglaskógi, með vísan í lagið góða. Tónleikarnir verða reyndar strangt til tekið ekki í Vaglaskógi heldur örskammt frá syðri mörkum skógarins, á stóru, opnu svæði sem tilheyrir jörðinni Mörk. Margir kannast við Lundsvöll, golfvöll í Fnjóskadal. Hann er skammt innan við svæðið þar sem tónleikarnir fara fram, eins og sjá má á kortinu.
- Ásamt Kaleo kom fram þennan dag Hjálmar, Júníus Meyvant, Jack Magnet, Bear the Ant, Soffía Björg, Sigrún Stella og Svavar Knútur, og hugsanlegt er að listinn eigi eftir að lengjast.
Rétt er að benda á að aldurstakmark á tónleikana er 16 ár, nema ungdómurinn sé í fylgd með foreldrum eða öðrum fullorðnum.