19 gráður – nýtt lag frá Ladda og „mönnunum“

Hinn eini, sanni Laddi hefur sent frá sér nýtt lag ásamt Hljómsveit mannanna en þá sveit skipa hinir akureyrsku Hvanndalsbræður ásamt fleirum. „Lagið heitir 19 gráður og er óður til sumarsins og þess sem vænta má á næstu vikum,“ segir í tilkynningu.
„Laddi og hljómsveit mannanna hafa ferðast um landið undanfarin tvö ár og leikið á tónleikum bestu lög Ladda ásamt því að gefa út tvö lög, en 19 gráður er það þriðja sem hópurinn gerir saman. Áður hafa komið út lagið Tíminn og endurgerð á laginu Mamma.“
Um þessar mundir leikur Laddi flestar helgar í leikritinu Þetta er Laddi í Borgarleikhúsinu en Hljómsveit mannanna „er í startholunum og bíður þess að túra með Ladda á ný þegar glufur myndast. Það er amk ljóst að Laddi er hvergi nærri hættur í tónlistinni en lagabálkur hans telur fleiri hundruð laga og mörg hver gríðarlega vinsæl.“
Á myndinni er Hljómsveit mannanna ásamt Ladda, frá vinstri: Magni Ásgeirsson gítarleikari og söngvari, Arnar Tryggvason sem leikur á hljómborð og syngur, Valur Freyr Halldórsson trommari, Þórhallur Sigurðsson – Laddi, Pétur Steinar Hallgrímsson gítarleikari og söngvari og Summi Hvanndal bassaleikari og söngvari. Þegar myndin var tekin voru þeir fjarverandi, Ármann Einarsson, sem blæs í saxafón í hljómsveitinni, og Valgarður Óli Ómarsson slagverksleikari.
Smellið á myndina að neðan til að hlusta á lagið á Spotify