13 hljóðfæraleikarar og blússandi fönk í Hofi

Big Band Eyþórs verður með tónleika í Hofi, á föstudagskvöldið kemur, þann 5. september kl. 20.00. Tónleikarnir bera heitið „Fönk Kvöld í Hofi“. „Okkur langar að leyfa fólki að heyra alvöru fönktónlist með stóru bandi sem er kannski ekki mjög algengt að sé spiluð live hér á Íslandi en þó tónlist sem margir hafa gaman af,“ segir Eyþór Alexander Hallsson tónlistarmaður.
„Á tónleikunum verða tekin ýmiskonar fönk lög sem fólk ætti að þekkja eftir listamenn eins og Tower of Power, Michael Jacson, Stevie Wonder og Sálina hans Jóns míns til að nefna nokkur dæmi,“ segir Eyþór. „Auk þess verða tekin nokkur frumsamin lög.“
Vöktu athygli í Músíktilraunum
Hljómsveitin var stofnuð fyrir Músíktilraunir og lenti í 3. sæti í þeirri keppni, auk þess að fá viðurkenningar fyrir besta hljómborðsleikara og trommuleikara keppninnar. Það er ungt og efnilegt tónlistarfólk sem skipar sveitina, en þau eru 13 talsins og 6 af þeim eru blástursleikarar.
„Tónleikarnir eru styrktir af listasjóðnum VERÐANDI sem gerir okkur kleift að halda svona stóra tónleika á svona flottum stað. Við í hljómsveitinni erum mjög spennt og hlökkum til að spila fyrir ykkur,“ segir Eyþór að lokum. „Við lofum góðri tónlist og stemmingu.“
Big Band Eyþórs skipa:
Eyþór Alexander Hallsson – Hljómborð
Heimir Steinn Vigfússon – Söngur
Gunnar Hrafn Kristjánsson – Söngur
Þorsteinn Jónsson – Trommur
Jóhann Þór Bergþórsson – Bassi
Guðmundur Þórarinsson - Trompet
Eberg Óttarr Elefsen - Trompet
Kjartan Hugi Rúnarsson – Altó saxófónn
Ýmir Haukur Guðjónsson – Tenór saxófónn
Þórhallur Forni Halldórsson – Baritón saxófónn
Hildur Arna Hrafnsdóttir - Þverflauta