Fara í efni
Fréttir

11 fyrirtæki á Akureyri taka þátt í Kveikjunni

Upphafsviðburður Kveikjunnar á vegum Driftar EA fór fram á dögunum í Messanum við Ráðhústorg á Akureyri. Þar komu saman fulltrúar ellefu fyrirtækja úr fjölbreyttum greinum atvinnulífsins og hófu formlega þátttöku sína í verkefninu. Fyrirtækin sem taka þátt eru Frost, Húsheild Hyrna, Höldur, Nortek, Rafeyri, Samherji, Slippurinn, SS Byggir, Stefna hugbúnaðarhús, Sæplast og Vélfag.

„Við buðum fyrirtækjum af svæðinu í Kveikjuna sem eru rótgróin og hafa burði til þess að gefa sér tíma í svona verkefni,“ segir Sesselja Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA við blaðamann Akureyri.net. „Fleirum var boðið, en ekki öll sem gátu þegið það. Um er að ræða samnorrænt tilraunaverkefni sem við keyrum í eitt ár, en það verða mánaðarlegir fundir á þessum tíma, sem eru haldnir í Drift EA.“

Efling kynningarstarfs og samtals við menntastofnanir

„Við erum að fiska eftir því, að komast að því hvaða áskoranir eru að koma upp hjá þessum fyrirtækjum og þá mögulega leita lausna hjá frumkvöðlum,“ segir Sesselja. „Það kemur svo bara í ljós hversu vel það gengur. Það sem er svo auka ávinningur fyrir okkur, og utan við þetta samnorræna starf, er að við erum að efla samtalið á milli háskólanna á svæðinu og atvinnulífsins. Einnig fá fyrirtækin rými til þess að skoða sína ímynd út á við og velta fyrir sér hvernig mætti bæta kynningarstarf og samtal við samfélagið. Svo er náttúrulega frábært að vera að efla samvinnu og samtal rótgróinna fyrirtækja á svæðinu á ýmsum sviðum, upp á tengslanetið að gera.“ 

Strax á fyrsta fundi var greinilegt að hér er hópur með mikinn metnað, góða orku og einlægan áhuga á að skapa eitthvað nýtt saman

Kveikjan er nýsköpunarverkefni Driftar EA, að sænskri fyrirmynd, með tengingu við Ignite Nordic sem er starfandi á Norðurlöndunum og miðar að því að efla nýsköpun og þróun innan starfandi fyrirtækja á svæðinu. „Þátttakendur læra að nýta sér frjótt umhverfi skapandi hugsunar með aðgangi að öflugu tengslaneti Ignite Nordic undir leiðsögn Kveikjunnar,“ segir Sesselja. „Svo má segja frá því að stjórn SSNE hefur valið Kveikjuna sem eitt af áhersluverkefnum þar sem það styður við markaðssetningu svæðisins sem spennandi valkost fyrir ungt fólk og fyrirtæki.“

 

Mikið rætt og skrafað á upphafsdegi Kveikjunnar. Myndir aðsendar.

Öflugt tengslanet skapað

„Markmiðið með upphafsviðburðinum var að skapa sameiginlegan grunn fyrir hópinn, byggja tengsl og kveikja hugmyndavinnu sem nýtist í komandi vinnustofum og þarfagreiningu með ráðgjöfum Kveikjunnar,“ segir Sesselja. „Farið var í samtöl og hópavinnu þar sem meðal annars var rætt um að skapa sterkan sameiginlegan vettvang til þess að deila reynslu, stuðla að markvissri tengingu atvinnulífs og menntunarstofnana á svæðinu og auka samstarf í markaðssetningu og þróun. Það eru ýmis tækifæri sem felast í nándinni, svæðisbundinni sérstöðu, öflugu tengslaneti og mannauðnum á svæðinu.“

„Það er bæði hvetjandi og gefandi að taka þátt í svona prógrammi. Það skiptir miklu máli að fyrirtæki á svæðinu geti lært hvert af öðru og sameinað krafta sína. Strax á fyrsta fundi var greinilegt að hér er hópur með mikinn metnað, góða orku og einlægan áhuga á að skapa eitthvað nýtt saman,“ sagði Björn Gíslason, framkvæmdastjóri Stefnu hugbúnaðarhúss, um sína upplifun af deginum.