100 þúsund krónur í fundarlaun fyrir tjónvald

Fjölskylda sem dvelur á Akureyri vegna N1-fótboltamótsins varð fyrir því óláni í gær að keyrt var utan í bíl þeirra á meðan þau voru á KA-vellinum. Sá sem olli tjóninu stakk af og bjóða þau fundarlaun fyrir upplýsingar sem leiða til þess að viðkomandi finnist.
„Aðili keyrði utan í bílinn okkar á N1-mótinu og stakk af – 100.000 kr. fundarlaun.“ Einhver keyrði utan í bílinn hjá okkur á N1-mótinu og stakk síðan af án þess að láta vita. 100.000 kr. í fundarlaun fyrir þann sem getur bent á þann sem olli tjóninu eða á í fórum sínum myndefni (t.d. myndband eða myndir) sem hjálpa við að bera kennsl á ökutækið. Ef viðkomandi vill hafa samband áður en málið fer lengra, þá er enn hægt að leysa þetta í gegnum tryggingarnar.“
Svona hljómar auglýsing sem eigandi bílsins, Hinrik Þór Kristinsson, setti inn á samfélagsmiðla eftir að keyrt var utan í fjölskyldubílinn gráan Range Rover Evoque þar sem hann stóð á stæði sem hafði verið sérstaklega útbúið vegna mótsins og aðgreint með keilum. Bílastæðið er við Þingvallastræti, rétt hjá auglýsingaskiltinu við KA völlinn. Atvikið átti sér stað á tímabilinu 17.50-18.40 í gær, miðvikudag.
Staðurinn sem atvikið átti sér stað á í gær miðvikudag. Bílastæði hafa verið afmörkum með keilum á annarri akreininni við Þingvallastræti.
Snýst um traust og siðferði í umferðinni
„Það er ljóst að sá sem gerði þetta hefur orðið var við höggið, það eru sjáanlegar skemmdir á afturstuðara bílsins og hann er orðinn laus,“ segir Hinrik Þór. Þá má einnig sjá ljósar rispur á bílnum sem gefa vísbendingar um að bíllinn sem var að verki sé ljós eða silfraður. Hinrik segir að hann skilji vel að slys geti gerst en fólk verði að taka ábyrgð á sínum mistökum og vill hann ekki sitja uppi með kostnað vegna ábyrgðarleysis annarra. Ekki eru oft svona há fundarlaun í boði á Akureyri, en í huga Hinriks og eiginkonu hans snýst þetta ekki eingöngu um bílinn þeirra heldur um traust og siðferði í umferðinni.
Í annað sinn sem fjölskyldan lendir í tjóni
Í ljós kemur að þetta er í annað sinn sem fjölskyldubíllinn verður fyrir viðlíka tjóni en það gerðist fyrir sunnan. Hinrik lýsir því hvernig eiginkona hans var þá að keyra Reykjanesbrautina í átt að heimili þeirra í Garðabæ. „Hún var ólétt á þessum tíma og var að keyra á hægri akrein. Þá kemur bíll utan vegar hægra megin við hana og straujar alla hægri hliðina á bílnum. Ökumaðurinn brunaði í burtu án þess að stöðva og fannst aldrei þrátt fyrir að mörg vitni væru að atburðinum en bílnúmeraplatan á bílnum hans var svo skítug að enginn náði númerinu,“ segir Hinrik. Um sama bíl er að ræða og nú varð fyrir tjóni á Akureyri en hann skemmdist mjög mikið við atvikið á Reykjanesbraut. Að sögn Hinriks er einungis um ár síðan hann var lagaður eftir það tjón og það er því sérlega svekkjandi að lenda í þessu aftur.
- Þeir sem hafa einhverja vitneskju um tjónið og geta aðstoðað fjölskylduna í þessu máli geta sent Hinriki póst á netfangið hinrikgeir@icloud.com