Fara í efni
Fréttir

100 ljósmæður koma saman á Akureyri

Að fá að fæðast í öruggu umhverfi er mikil gjöf. Mynd: Unsplash

Alþjóðlegur dagur ljósmæðra er haldinn hátíðlegur þann 5. maí næstkomandi. Af því tilefni verður haldin ráðstefna á Hótel KEA á morgun, föstudaginn 3. maí þar sem ljósmæður hvaðanæva af landinu munu koma saman. Sigfríður Inga Karlsdóttir, prófessor við Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri segir að það líti út fyrir að rúmlega 100 ljósmæður muni mæta.

Mörg og mismunandi erindi eru á dagskrá ráðstefnunnar sem má sjá hér

Það eru margar áskoranir á heimsvísu, en ekki öll búa við jafn traust og gott starf ljósmæðra eins og við á Íslandi. Á vef UNFPA, United nations population fund, sem er á vegum Sameinuðu Þjóðanna, segir að áhersla Ljósmæðradagsins 2024 verði á áskoranir í tengslum við loftslagsbreytingar og þau svæði sem eru í hvað mestri hættu. Þar segir að það sé oft á þeim svæðum sem konur eru í viðkvæmustu stöðunni varðandi dauða við barnsburð, giftinga ungra stúlkna og kynbundins ofbeldis. 

Það, að búa við öryggi við barnsburð, er réttur okkar allra. Því miður er það ekki staðan á heimsvísu, en við Íslendingar megum vera þakklát fyrir okkar metnaðarfullu ljósmæður. Ráðstefnur á borð við þá sem haldin verður hérna á morgun styrkja svo starf þeirra enn meira.