100 ár frá fæðingu Gísla Jónssonar

Í dag eru 100 ár frá fæðingu Gísla Jónssonar, menntaskólakennara. Gísli fæddist á Hofi í Svarfaðardal 14. september 1925 og lést á Akureyri í nóvember 2001. Hann kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri í áratugi, var virtur og dáður, ekki bara sem kennari heldur manneskja.
„Okkur þótti vænt um hann og ég þykist vita að aðrir nemendur Gísla Jónssonar hafi sömu sögu að segja,“ skrifaði ofanritaður í pistlinum Meistari málsins sem birtist í Morgunblaðinu 7. desember 2001, daginn sem útför Gísla fór fram. Ritstjóri akureyri.net – höfundur pistilsins – gerist svo djarfur að birta pistilinn aftur í dag, nú hér í sínum eigin miðli.
- Pistilinn má finna með því að smella hér: Meistari málsins
Gísli lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1946 og kandídatsprófi í norrænum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1953. Samhliða lauk hann einnig prófi í uppeldis- og kennslufræðum. Hann varð lausráðinn kennari við Menntaskólann á Akureyri árið 1951, en var síðan skipaður í starfið árið 1953 og starfaði þar alla tíð.
Mikilhæfur maður
Gísli var ekki einhamur; hann var ötull í stjórnmálum og var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri nær samfellt frá 1958 til 1983 og sat í bæjarráði frá 1970-1980. Hann var einnig varaþingmaður um tíma, sat á þingi öðru hverju og gegndi einnig ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Gísli hafði ástríðu fyrir íslenskri tungu og í mörg ár skrifaði hann þættina Íslenskt mál í Morgunblaðið. Þá skrifaði hann fjölmörg rit og nefna má að Gísli var ritstjóri glæsilegrar Sögu Menntaskólans á Akureyri, sem kom út árið 1980, á 100 ára afmæli skólans.
Gísli Jónsson í turni Hóladómkirkju, á Hólum í Hjaltadal, vorið 1982. Þar var hann á ferð með nemendum sínum í máladeild Menntaskólans á Akureyri. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Margir minntust Gísla í Morgunblaðinu á útfarardaginn. Tryggvi Gíslason, skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003, skrifaði meðal annars:
„Gísli Jónsson var mikilhæfur maður, þótt ekki fengi hann notið allra hæfileika sinna. Hann hefði í lífi sínu getað skreytt sig ýmsum virðingarnöfnum eins og sagnfræðingur, rithöfundur, íslenskufræðingur, bókmenntafræðingur, bæjarfulltrúi – jafnvel alþingismaður, en hann kaus að nota virðingarheitið menntaskólakennari og sagði það mesta virðingarheiti sem hann gæti borið, enda var hann tengdur Menntaskólanum á Akureyri hálfa öld og skólinn í raun eini vinnustaður hans á langri starfsævi.“
Tryggvi sagði einnig: „Menntaskólinn á Akureyri var Gísla Jónssyni því mikils virði, eins og hann sagði sjálfur, en ekki síður var Gísli Jónsson mikils virði Menntaskólanum á Akureyri, enda er hann í fremstu röð þeirra mörgu lærdómsog sæmdarmanna sem þjónað hafa Menntaskólanum á Akureyri.“
Íslenskt mál – 1.138 þættir
„Varðstaða um íslenzkt mál og menningararfleifð þjóðarinnar hefur verið grundvallarþáttur í stefnu og útgáfu Morgunblaðsins,“ skrifaði Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins í minningargrein um Gísla.
Styrmir hélt áfram:
„Á síðustu fjórum áratugum hefur enginn átt þar stærri hlut að máli en Matthías Johannessen, sem lét af ritstjórastarfi um síðustu áramót. Ofnæmi hans vegna misþyrmingar málsins á síðum Morgunblaðsins var slíkt að hann þoldi ekki að opna blaðið þá daga, þegar mjög vondar málvillur var að finna á síðum þess. Ræðuhöld hans yfir blaðamönnum við slík tilefni eru öllum eftirminnileg, sem á hlýddu.
Það var af slíku tilefni, sem Matthías tók upp símann og hringdi í vin sinn Gísla Jónsson, menntaskólakennara á Akureyri, og bað hann
skrifa í blaðið fasta þætti um íslenzkt mál. Þeir urðu samtals 1.138. Hinn síðasti þeirra birtist hér í blaðinu á fullveldisdaginn 1. desember sl. Gísli
sendi hann til blaðsins 26. nóvember sl. en hann lézt að kvöldi sama dags. Með reglulegum þáttum sínum um íslenzkt mál gegndi Gísli Jónsson lykilhlutverki í þeirri viðleitni Morgunblaðsins að halda uppi andófi gegn of miklum áhrifum hins enskumælandi heims á tungu okkar og menningu.“
Á kennarastofu Menntaskólans á Akureyri tíðkaðist lengi að spila Ólsen-Ólsen en ekki var þó farin hefðbundin leið. Í stokki MA-kennara voru 184 spil, þar af 34 áttur og 17 ásar! Hér spila íslenskukennararnir Sverrir Páll Erlendsson, Valdimar Gunnarsson og Gísli Jónsson í desember árið 1985. Mynd: Skapti Hallgrímsson
„Smugan“ eða „Cubiculum magistrorum“
Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður á Akureyri, var einn þeirra sem minntust Gísla í Morgunblaðinu 7. desember 2001. Hann skrifaði:
„Á Amtsbókasafninu á Akureyri er svolítið herbergi sem áður var skrifstofa héraðsskjalavarðar en var hin seinni ár ýmist kallað „Smugan“ eða
„Cubiculum magistrorum“ þegar mikið var haft við. Þar átti Gísli Jónsson sæti sitt um langt árabil og þar var hann dag hvern að undanskildum tveimur eða þremur dögum á ári um jól og páska. Þar skrifaði hann pistla sína um íslenskt mál og vann að öðru því sem hugur hans stóð til. Þar voru þykkar bækur um nafnafræði og sú ómetanlega spjaldskrá hans um mannanöfn sem hann gaf Héraðsskjalasafninu og Amtsbókasafninu um áramótin síðustu. Einnig voru þar ritvélin Kristjana og tölvan Raflína.“
Veggir þessa herbergis, sagði Hólmkell, „eru þaktir myndum af mönnum, ljósritum af textum og ýmsu því sem við kölluðum speki.“ Eitt ljósritanna var af ljóði sem Gísli hafði sjálfur samið og kallaði „Venjulegt haustljóð“. Fyrstu tvö erindin eru:
Aspirnar stand’ allar ennþá svo skínandi gular,æðrulausar og skynja í ró að það kular.Brátt fæst sú hvíld sem þeim náttúran leyfir að neytaog næsta vor skulu þær laufhaddi grænum sig skreyta.
Þær bera ekki ugg, enda augljós hin geiglausa myndin,en öðrum mun finnast sem haustljóð sé komið í vindinnog vita eins og skáldið að villusamt reynist á vegiog vonlaust að skrúði, sem horfinn er, nýskapast megi.
„Húsleki í kansellíinu“
„Gísli vísaði stundum til veru sinnar á Amtsbókasafninu og starfa sinna þar með því að vitna í gamla manntalsbók en um einn mann stóð „er
þar“ eða þá að hann kallaði sjálfan sig „húsleka í kansellíinu“,“ skrifaði Hólmkell Hreinsson. „En okkur sem nutum samvista við hann og áttum hann að vini fannst miklu fremur að frá honum stafaði birtu og hlýju og nær væri að kalla hann staðarprýði.“
Gísli Jónsson kvaddi, sagði Hólmkell amtsbókavörður, í samhljómi við lokaerindi haustljóðs síns:
En hver sem um ævina einhverju hafði að skarta,á þó á haustdegi þakklæti ríkast í hjarta.Sem lauf mun hann hóglega í húmkyrru falla til svarðarí hlýju þess faðmlags sem ól hann til skapandi jarðar.
- Pistillinn sem nefndur var í upphafi: Meistari málsins