Fara í efni
Mannlíf

10 jólagjafahugmyndir frá Akureyri

Það styttist í jólin og margir eru þessa dagana að kaupa jólagjafirnar. Oft reynir á hugmyndarflugið í jólagjafainnkaupunum en til að létta undir með bæjarbúum hefur Akureyri.net sett saman hugmyndalista af akureyrskum jólagjöfum.

Leikur að pinnum

Pinnaspilið, sem framleitt er af akureyrska fyrirtækinu Krat, er nýkomið í sölu en um er að ræða borðspil sem hentar fyrir alla aldurshópa. Spilið gengur í stuttu máli út á það að pinnum er dreift jafnt milli leikmanna, sá sem gerir fyrst kastar teningi og setur pinna á þann stað sem talan á teningnum sýnir. Ef pinni er nú þegar á sama stað og talan sýnir þarf spilarinn að taka pinnann. Ef spilari fær 6 þá dettur pinninn í boxið og spilarinn fær að gera aftur. Sá spilari sem klárar sína pinna fyrst vinnur. Spilið fæst á Akureyri hjá LYST í Lystigarðinum og í spilaversluninni Goblin. Einnig er hægt að kaupa spilið í vefverslunni pingame.is

Skart úr gamalli mynt

Undanfarin fimm ár hefur Hörður Óskarsson smíðað fallega skartgripi úr gamalli íslenskri mynt. Hann byrjaði á því að prófa sig áfram með hringa en síðan hefur annað skart bæst við eins og slaufur, hálsmen, bindisnælur o.fl. Hægt er að sjá vörur Harðar inn á Facebooksíðunni Mynthringar og allskonar.

Armband í sund

Þetta er gjöfin fyrir þá sem fara oft í sund í Sundlauginni á Akureyri og vilja bæta auknum notalegheitum í sundferðina. Um er að ræða skápaarmband sem virkar þannig að í stað þess að leggja skápanúmer og leyninúmer á minnið þegar skáp er læst í búningsklefa þá er nóg að bera armbandið upp að skjánum til að opna og læsa skápnum. Armbandið er vissulega ekki búið til á Akureyri en það gildir eingöngu í Sundlaugina á Akureyri.

Náttúrulegar húðvörur

Fyrirtækið Purity Herbs hefur síðan 1994 framleitt náttúrulegar húðvörur úr íslensku vatni, vikri og handtýndum villtum íslenskum jurtum sem þekktar eru fyrir lækningarmátt sinn. Fyrirtækið hefur alltaf verið staðsett á Akureyri en vörur þess eru seldar víða bæði hér heima og erlendis. Vöruúrvalið er fjölbreytt og þá er hægt að kaupa sérstakar gjafapakkningar t.d gjafasett fyrir athafnafólk sem inniheldur m.a. uppbyggjandi nuddolíu sem er sérstaklega góð eftir áreynslu. Sjá nánar á purityherbs.is

Fallegir smáhlutir úr tré

Viður leikur í höndunum á Adami Ásgeiri Óskarssyni sem vinnur flest sín verk úr efnivið sem til fellur. Jólatréin hans og smáfuglar hafa fengið mikla athygli en Adam hefur selt vörur sínar á handverksmörkuðum og í verslun Minjasafnsins á Akureyri. Best er þó að hafa beint samband við hann í gegnum Facebooksíðuna hans Tré og föndur hafi fólk áhuga á því að eignast grip eftir hann.

Gjafabréf í alls konar

Það má auðveldlega leysa jólagjafainnkaupin með gjafabréfum. Glerártorg er t.d. með rafræn gjafakort til sölu sem hægt er að nýta í allar verslanir í verslunarmiðstöðinni. Þá er hægt að kaupa gjafabréf hjá veitingastöðum bæjarins og flestar aðrar verslanir bjóða einnig upp á slíkan möguleika. Nýjustu afþreyingarfyrirtæki bæjarins, Zipline Akureyri og Skógarböðin hafa einnig verið að auglýsa gjafabréf til sölu sem og flugfélagið Niceair.

Skóhorn með löngu skafti

Mörg heimili á Akureyri eiga nú þegar skóhorn frá Blikkrás sem hafa verið feikivinsæl. Skóhornin hafa fengist í mörgum litum en þau þykja afar þægileg í notkun þar sem þau eru 70 cm löng. Fást hjá Blikkrás.

Bretti sem bjargar jóladúknum

Grafíski hönnuðurinn Sigrún Björg Aradóttir er hönnuðurinn á bak við Demant skurðarbrettið frá Agndofa Hönnunarhúsi. Hönnun þess er bæði falleg og praktískt því þvert yfir brettið, sem er úr bambus, liggja rákir sem grípa vökva um leið og hann lekur úr matnum sem liggur á brettinu. Sigrún Björg er með fleiri fallegar vörur til sölu á heimasíðu sinni en kortin hennar eru seld í Jólahúsinu og Blómabúð Akureyrar. Sjá vöruúrvalið nánar á agndofa.is.

Þægilegur jólakærasti

Það getur verið erfitt að vera einn um jólin en listakonan Jonna er með ráð við því. Fyrir nokkru hóf hún að framleiða kærasta í formi lítilla prjónakarla, sem upphaflega voru hugsaðir fyrir óöruggar konur sem finnst þær alltaf þurfa að eiga kærasta. Kærastar Jonnu eru mjúkir og tryggir og hentugir bæði í kúr og verslunarferðir. Þeir kvarta aldrei og eru mjög meðfærilegir! Kærastarnir urðu fljótt afar vinsælir og kallaði markaðurinn einnig eftir kærustum og þannig varð kærastafólkið til. Kærastafólkið fæst m.a. í verslun Listasafnsins á Akureyri og í Rösk í Listagilinu.

Veggspjald með boðskap

Hjartalag er lítið en vaxandi fyrirtæki á Akureyri. Það er stofnað af grafíska hönnuðinum Huldu Ólafsdóttur sem hannar alls konar heimilis- og gjafavörur á vinnustofu sinni að Þórunnarstræti 97 t.d. teppi, svuntur, bækur, bakka, kerti, bakpoka o.fl. Þá framleiðir hún líka veggspjöld með fallegum boðskap en hún segir að markmiðið með fyrirtækinu sé að breiða út hlýju, kærleika og alúð með ljóðum, gullkornum og jákvæðum boðskap. Tilgangurinn er að efla samstöðu, jákvæðni og uppbyggingu í samfélaginu. Hægt er að versla vörur Huldu víða um land sem og í vefverslunnni, hjartalag.is, en eins er hún með opna vinnustofu samkvæmt samkomulagi.

  • Þessi listi er ekki tæmandi. Það er hægt að kaupa marga fleiri áhugaverða hluti til jólagjafa sem framleiddir eru á Akureyri en þá sem taldir hafa verið upp hér.