Fara í efni
Menning

„Vona að menn dásami friðinn og ljósið“

Arngrímur B. Jóhannsson og Jón Hlöðver Áskelsson á heimili Jóns á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Einhvern tíma verður allt fyrst!

Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri og loftskeytamaður, verður einleikari á morssendi í frumflutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands (SN) á SOS sinfóníu Jóns Hlöðvers Áskelssonar um næstu helgi. Jón Hlöðver kveðst ekki vita til þess að leikið hafi verið á morstæki í sinfóníu nokkurs staðar í heiminum áður.

Vortónleikar SN verða í Hofi næstkomandi sunnudag þar sem hljómsveitin flytur einnig hina mögnuðu 5. sinfóníu Ludwigs van Beethoven, Örlagasinfóníuna. Bjarni Frímann Bjarnason stjórnar hljómsveitinni.

Tónleikarnir áttu upphaflega að fara fram árið 2020, en hefur nokkrum sinnum verið frestað vegna Covid. Þá voru liðin 250 ár frá fæðingu Beethovens, auk þess sem Jón Hlöðver varð 75 ára 2020 og Arngrímur áttræður. Jón Hlöðver bendir á að árið 2022 tengist tónverki sínu að því leyti að liðin eru 150 ár frá andláti þess merka manns, Samuels Finley Breese Morse; þess sem fann upp mors merkjamálið.

  • Nánar um Morse og hið stórmerkilega merkjamál neðst í greininni.

Ljósið skín í myrkrinu

Um tilurð SOS sinfóníunnar segir Jón Hlöðver að upphafið megi rekja til þess er hann skoðaði Norðurslóðasetur Arngríms Jóhannssonar á Oddeyri haustið 2017. Þar var gamalt morstæki, að líkindum úr síðutogaranum Harðbak EA þar sem Arngrímur var loftskeytamaður skamma hríð fyrir sex áratugum.

„Ég varð fyrir mjög sterkum áhrifum á Norðurslóðasetrinu þegar Arngrímur morsaði fyrir mig setninguna Ljósið skín í myrkrinu úr Jóhannesarguðspjalli og hjálparákallið – SOS. Eftir það fæddist hugmyndin að þessu verki,“ segir Jón Hlöðver við Akureyri.net.

Kom bara einn til greina

Tónskáldið bendir á að morsið hafi oft skilið að ljós og myrkur, líf og dauða og sé tengt bæði sorg og gleði; það hafi vakið upp hugmyndir um dramatískt hljómsveitarverk og nú sé loks komið að flutningi 50 manna sinfóníuhljómsveitar á verkinu.

„Ég velti fyrir mér hvernig hægt væri að þróa þessa hugmynd yfir í tónheiminn, ég bjó til morsdæmi og verkið stækkaði smám saman. Svo þegar ég velti því fyrir mér hvernig hægt yrði að miðla morsinu sjálfu fannst mér eini möguleikinn vera að einleikari myndi leika á gamla morstækið á tónleikunum. Og þá fannst mér bara einn koma til greina!“ segir Jón Hlöðver.

SOS sinfónían er í fimm þáttum og tekur liðlega hálftíma í flutningi. Hún verður flutt á fyrri hluta tónleikanna og svo 5. sinfónía Beethovens, Örlagasinfónían í síðari hlutanum, „með sínu Morse sigurhljóðfalli í upphafi,“ segir Jón Hlöðver.

„Geri mitt besta“

Arngrímur tók hugmyndinni af mikilli stillingu, segir tónskáldið. „Hann er tvímælalaust einn af allra færustu morsloftskeytamönnum þessa lands og það er einstakt að njóta liðsinnis hans.“

Einleikarinn, Arngrímur, segist hafa mjög gaman af því að fá að taka þátt í flutningi verksins. „Ég hrífst af þessu og reyni að gera mitt besta,“ segir hann við Akureyri.net. Textinn sem hann morsar er úr Jóhannesarguðspjalli og verður varpað á tjald á sviðinu. Textinn verður á ensku en íslenski textinn í efnisskránni. Arngrímur sagðist vitaskuld geta morsað textann á íslensku en hljóðgervill, sem sérstaklega var smíðaður fyrir flutninginn, ræður ekki við það.

„Það má segja að verkið sé um björgun manns sem var í neyð í byrjun verksins, eða björgun heimsins – eða Úkraínu,“ segir tónskáldið Jón Hlöðver Áskelsson, og bætir við: „Ég vona að eftir hlustun dásami menn að minnsta kosti friðinn og ljósið. Ekki veitir af.“

Tónleikarnir í Hofi á sunnudaginn hefjast klukkan 16.00.

Klukkustund fyrir tónleikana mun tónlistarmaðurinn og félagsfræðingurinn Kjartan Ólafsson halda kynningu á tónverkunum á veitingastaðnum Garún í Hofi. Boðið verður upp á léttar veitingar og þangað eru öll velkomin.

_ _ _

Hver var Morse og hvað er mors?

  • Samuels Finley Breese Morse (1791 – 1872) naut viðurkenningar sem listmálari og uppfinningamaður. Heimsfrægð hlaut Morse fyrir uppfinningu sína á rafsegulbúnaði 1837, þar sem unnt var að senda skeyti með sérstöku merkjamáli um raflínu styttri eða lengri vegalengd.
  • Merkjamálið þróaðist í samvinnu margra aðila og náði alþjóðlegri útbreiðslu með uppfinningu Guglielmo Marconi hálfri öld seinna á notkun útvarpsbylgjunnar. Þetta merkilega táknmál og sendingar þessa bera nafn upphafsmanns síns Morse.
  • Morsið er radíósendamál, myndað úr stuttum og löngum tónum og hefur bjargað gríðarlegum fjölda mannslífa í hvers kyns stríðs-, sjávar- og slysaháska í nær 150 ár.
  • Þess má líka geta að fyrsta hljóðfallið í fimmtu sinfóníu Beethovens, Örlagasinfóníunni sem svo hefur verið kölluð, samanstendur af þremur stuttum slögum og einu löngu, sem á Morsemáli er stafurinn V, skammstöfun í stríði fyrir Victory; sigur.