Fara í efni
Menning

Volaða land í bíó og spjall við áhorfendur

Danski leikarinn Elliott Crosset Hove í Volaða landi. Hann var tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í myndinni.

Akureyrskir bíógestir eiga von á góðu næstkomandi laugardag þegar margverðlaunuð kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land, verður sýnd í Sambíó og að sýningu lokinni gefst áhorfendum tækifæri til að spjalla við leikstjóranna og aðalleikara myndarinnar.

Myndin, sem hefur hvarvetna hlotið frábæra dóma, verður loks frumsýnd hér á landi á föstudaginn, 10. mars.

„Í framhaldinu hyggst leikstjórinn ásamt aðalleikurunum þeim Ingvari E. Sigurðssyni og Elliott Crosset Hove að halda í hringferð um landið með myndina. Þannig er ætlunin að hafa sérstakar sýningar þar sem áhorfendum gefst tækfiæri til að spjalla við leikstjórann og leikarana að sýningu lokinni,“ segir í tilkynningu frá framleiðanda myndarinnar.

„Þessar sýningar munu fara fram þann 10. mars á Ísafirði kl. 20, þann 11. mars á Patreksfirði kl. 12 að hádegi og á Akureyri um kvöldið kl. 20, og að lokum þann 12. mars á Seyðisfirði kl. 20.“

Í kynningu á myndinni segir: „Volaða Land, sem er þriðja kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, er stórbrotin saga af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu, og eigin siðgæði.“

Myndin var frumsýnd á Cannes síðastliðið vor við standandi lófaklapp. Þaðan hefur myndin ferðast víða um lönd og hlotið mikið lof gagnrýnenda t.a.m. í Frakklandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf einnig myndinni 5 stjörnur og sagði hana eina af bestu myndum ársins. Aðrir erlendir miðlar hafa meðal annars talað um hana sem stórbrotið listaverk, fjársjóð sem minni á margar bestu myndir kvikmyndasögunnar, segir í tilkynningunni. 

Nefnd eru þessi dæmi:

  • „Algjört stórvirki“ - Screen Daily
  • „Mögnuð“ - La Journal du Dimanche
  • „Epískt ferðalag sem minnir á verk sumra bestu leikstjóra kvikmyndasögunnar“ - International Cinephile Society
  • „Kvikmyndin sem hefði átt að hreppa Gullpálmann“ - Slate
  • „Óviðjafnanleg“ - Jyllands Posten

Þess má geta að Volaða land hlaut nýlega 11 tilnefningar til Edduverðlaunanna 2023; myndin hlýtur tilfnefningu sem kvikmynd ársins, Hlynur Pálmason sem leikstjóri ársins og fyrir handrit ársins, Ingvar E. Sigurðsson er tilnefndur sem leikari ársins í aðalhlutverki og Hilmar Guðjónsson sem leikari ársins í aukahlutverki. Aðrar tilnefningar voru fyrir búninga, gervi, myndatöku, tónlist, klippingu og hljóð. Einnig má geta þess að danski leikarinn Elliott Crossett Hove var tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í myndinni.

Sem fyrr segir verður kvikmyndin frumsýnd 10. mars og eru íbúar á Ísafirði, Patreksfirði, Akureyri og Seyðisfirði þeir fyrstu hér á landi sem eiga þess kost að ræða við leikstjóra og leikara myndarinnar að sýningu lokinni.

Ingvar E. Sigurðsson í Volaða landi. Hann er tilnefndur til Edduverðlaunanna sem besti leikari í aðahlutverki fyrir frammistöðuna.