Fara í efni
Menning

Viltu hvetja Curver til dáða í Listagilinu?

Listamaðurinn Curver Thoroddsen tekur þátt í A - Gjörningahátíð, sem stendur yfir á Akureyri. Í dag, laugardag, hyggst hann ýta risastórum steini upp Listagilið, og vonast til þess að bæjarbúar séu reiðubúnir að mæta á staðinn og hvetja hann til dáða.

Í gjörningnum fetar Curver í fótspor Sísýfosar í grísku goðafræðinni sem dæmdur var til að rúlla stórum steini upp á hæð, steini sem rúllar jafnharðan aftur niður brekkuna þannig að Sísýfosar er sífellt á byrjunarreit.

„Hann Sísýfos þarf á smá hvatningu að halda í þessu absúrd eilífðarstreði sínu. Er möguleiki á að foreldrar á Akureyri komi með börnin sín og hvetji hann áfram með víkingaklappinu eða einhverju öðru hvetjandi peppi?“ sagði Curver við Akureyri.net í gær.

„Sísýfos yrði alveg rosalega hamingjusamur ef að Akureyringar og gestir þeirra gætu hjálpað honum,“ sagði Curver, sem verður í Listagilinu milli 12.00 og 19.00 í dag.