Fara í efni
Menning

Vilhjálmur besti leikari í aukahlutverki

Vilhjálmur B. Bragason þakkar fyrir sig á Grímuhátíðinni í gærkvöldi. Skjáskot af RÚV.

Vilhjálmur Bergmann Bragason fékk í gærkvöldi Grímuverðlaunin sem besti leikari í aukahlutverki, þegar íslensku sviðslistaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúsinu.

Vilhjálmur fór á kostum í hlutverki Ketils skræks í uppfærslu Leikfélags Akureyrar (LA) á Skugga Sveini í vetur og fær Grímuna fyrir þá frammistöðu. Sú ákvörðun kemur satt að segja alls ekki á óvart.

Fæddur til að leika fávita!

„Guðni Th. Jóhannesson sagði við mig eftir frumsýninguna á Skugga Sveini: þú ert greinilega fæddur til að leika svona fávita, og það gleður mig að Grímunefnd sé á sama máli,“ sagði Vilhjálmur við upphaf þakkarræðu sinnar og uppskar hlátur í salnum.

„Fyrst af öllum ætla ég að fá að þakka Mörtu Nordal [leikhússtjóra LA og leikstjóra sýningarinnar], ég dáist svo að þér Marta og finnst svo vænt um okkar samstarf og vináttu og ég von að við fáum frekari tækifæri til að starfa saman. Það er ekkert sjálfgefið, það er djörf ákvörðun að setja upp Skugga Svein 2022,“ sagði Vilhjálmur; Marta hefði gert það og meira að segja gert verkið að hittara og „mér finnst eiginlega skandall að við sýnum það ekki áfram þegar við hættum fyrir fullu húsi og komum jafnvel með það til Reykjavíkur; hvernig væri það?“

Vilhjálmur þakkaði einnig frábæru samstarfsfólki, innan sviðs og utan, sérstaklega samleikurunum og sagðist verða að fá að nefna Jón Gnarr sérstaklega, „því það voru forréttindi að fá að sitja með honum í hellinum, með hespuna og kjammann, á hverju einasta kvöldi og ég fyrirgef þér Jón á endanum fyrir að fá mig til að borða augað úr sviðakjammanum á síðustu sýningunni!“

Að endingu sagði Vilhjálmur: „Ég er stoltur að fá þessa viðurkenningu fyrir hönd Leikfélags Akureyar. Ég byrjaði að leika sem krakki, lærði í leikhúsinu að vináttan spannar kynslóðirnar og ég tek við þessu í minningu vinar míns og læriföður, Þráins Karlssonar“

Nánar hér um Grímuverðlaunina á mbl.is

Vilhelm B. Bragason sem Ketill skrækur, til hægri, og Jón Gnarr í hlutverki Skugga Sveins í uppfærslu LA.