Fara í efni
Menning

Viðamikil endurútgáfa og tónleikahald

Viðamikil endurútgáfa og tónleikahald

Eyfirska sveitin Helgi og Hljóðfæraleikararnir hefur staðið í stórræðum á árinu. Hljómsveitin vinnur að því að setja allar plötur sínar á streymisveituna Spotify og endurútgefa valdar plötur á vínil og kassettum. Svo vel hefur tekist til að stefnt er á að klára verkefnið með haustinu og koma öllum 14 plötum H&H á Spotify, að sögn hópsins. Sem stendur eru átta albúm komin á streymisveituna.

Í tilefni endurútgáfunnar heldur hljómsveitin sérstaka tónleika. Þeir fyrri voru á Græna hattinum 16. júní þegar haldið var upp á að Meira helvíti kemur út á vínil og um 100 manns skemmtu sér konunglega, að sögn hópsins.

Næsta föstudagskvöld, 22. júlí, spila svo Helgi og Hljóðfæraleikararnir á Verkstæðinu á Akureyri og halda upp á að Endanleg hamingja verður gefin út en þar ræðir um tvöfaldan vínil vegna þess hve platan var löng. Húsið verður opnað kl. 20.00 og hljómsveitin stígur á svið kl. 21.00.

Góð stemning

Til að fullkomna stemninguna verða allir hljóðfæraleikararnir sem tóku þátt í að gera plötuna með á tónleikunum, og þá bætast við Stína (Kristín Þóra Haraldsdóttir tónskáld) á fiðlu og Gunný (Gunnur Ýr Stefánsdóttir) á þverflautu.

„Ég myndi segja að stemningin sé heilt yfir mjög góð,“ sagði Atli Rúnarsson trommuleikari hljómsveitarinnar þegar Akureyri.net grennslaðist fyrir um æfingar og stemninguna fyrir tónleikana. „Stemningin er góð í hópnum, sem hefur víst ekki komið saman í þessari mynd síðan árið 2000. Svo er líka bara góð stemning fyrir konsertinum. Það er eitthvað farið af miðum og líklega fara þeir flestir á konsertinum sjálfum. Okkar fólk mætir alltaf bara beint á konsert og borgar í dyrunum. Þannig að við eigum von á fullu húsi.“

En hvernig hafið þið æft fyrir þessa tónleika?

„Við æfum markvisst. Mjög markvisst. Hvílum lykilmenn á vissum tímapunktum en gefum vel í rétt fyrir konsert. Eigum svo nóg inni til að gefa allt, setja allt í botn 22. júlí. Það er líka afmælisdagurinn hans Helga þannig að þetta verður mjög sérstök stund og allir í stuði.“

Mikið havarí í endurútgáfumálum

Endurútgáfuverkefnið skiptist í tvennt. Annars vegar endurhljóðvinnsla á gamla efninu, bæði til að bæta úr gömlum hnökrum og til að koma því á viðeigandi stafrænt form til að gera það aðgengilegt á streymisveitum, einkum Spotify. Í þeim efnum hefur hljómsveitin notið liðsinnis frá Gunnari Smára Helgasyni hljóðgúrú með norðlenskar rætur.

Hins vegar eru H&H að endurútgefa plötur og hefur byrjað á: Landnámi, Endanlegri hamingju og Meira helvíti. Endurútgáfan er talsvert tímafrekari og verður því brotin niður í nokkra áfanga. Endurútgáfunni fylgir til dæmis að vinna umslögin fyrir allar plöturnar upp á nýtt en í þeim efnum hefur hljómsveitin notið liðsinnis frá Aðalsteini Svani Sigfússyni, norðanmanni.

Eftir nokkrar vikur kemur Landnám út á kassettu en hún er framleidd af TAPE Muzik í Þýskalandi. Kassettan er væntanleg í fyrri hluta ágúst. Með haustinu koma svo Meira helvíti og Endanleg hamingja út á vínil, en RPM Records í Kaupmannahöfn framleiðir. Framleiðslan á vínilplötum er ögn þung í vöfum þessi misseri og tekur nokkra mánuði eftir samþykkt á testpressu.

Langur starfsferill

Eins og nöfnin á plötunum gefa til kynna er himinn og haf á milli Endanlegrar hamingju og Meira helvítis. Annars vegar þjóðlagastemning, folk/country fílingur jafnvel Spilverksstemning og hins vegar rokk og jafnvel argasta pönk. Hljómsveitin hefur á sér margar hliðar en hefur alltaf farið sínar eigin leiðir og verið mjög sjálfstæð í því sem er langur ferill. Helgi og Hljóðfæraleikararnir eiga nefnilega 30 ára starfsafmæli á næsta ári.

Lagasafn Helga og Hljóðfæraleikaranna er þegar orðið talsvert stór. Um 200 lög og á annan tug platna. Þess vegna verða núna gefnar út þrjár plötur (ein snælda/kassetta og tvær á vínil), en ákveðið hefur verið að ráðast í aðra Karólínusöfnun með haustinu til að ljúka við að setja plötu- og lagasafn H&H á Spotify.

Með haustinu er stefnt á að gefa út tvær vínilplötur til viðbótar, eina 7“ og eina kassettu til viðbótar. Að auki verða tvær plötur endurunnar með stafrænum hætti og settar beint á Spotify. Þetta er sami háttur og var viðhafður þegar Helgi og Hljóðfæraleikararnir réðust í heilmikla söfnun á Karolina Fund seint á árinu 2021 sem gekk glimrandi vel. Um 112 manns styrktu verkefnið sem hefur gert að verkum að allt hefur gengið upp. Helmingurinn af upplögunum sem þá var í boði var seldur fyrirfram, og talsverð spurn eftir restinni eftir því sem líður nær því að eintökin komi til landsins. Hljómsveitin á von á og treystir á svipaðar viðtökur nk. haust þegar bæði Til Afríku og Launblót í 1000 ár verða endurútgefnar á vínil.