Fara í efni
Menning

Við syngjum gjarnan í moll á Íslandi

Kristjana Arngrímsdóttir, í stofunni á Tjörn. Mynd RH

Svarfaðardalurinn glitrar á köldu vetrarsíðdegi, þegar blaðamaður keyrir heim að Tjörn til þess að hitta Kristjönu Arngrímsdóttur, söngkonu og lagasmið. Hún gaf út sína fimmtu plötu fyrir stuttu og stefnir á útgáfutónleika í janúar. Platan ber nafnið ‘Ég hitti þig’ og þar hefur Kristjana samið lög við íslensk ljóð eftir ýmsa höfunda. Kristjana lýsir sér sem ‘alþýðusöngkonu’, en lögin á nýju plötunni eru fléttuð þjóðlegum, jafnvel melankólískum strengjum, í bland við suðræna og tilfinningaríka þræði í ætt við portúgalska ‘Fado’ tónlist.

Sköpunarþráin

„Hún var mjög merkileg kona, þessi Elísabet,“ segir Kristjana þegar við setjumst með kaffibolla í stofunni. Nýja platan er í hljómtækinu og við hlustum saman á lagið ‘Útþrá’, lag Kristjönu við ljóð eftir Elísabetu Geirmundsdóttur (1915-1959). „Hún var mikil listakona og hún stofnaði Skautafélag Akureyrar ásamt manninum sínum. Ég sé það alveg fyrir mér, þau hafa verið svo rómantískt par. Skautuðu saman á Pollinum.“ Við klárum að hlusta á lagið og Kristjana segir frá því hvað ljóð Elísabetar hafi talað sterkt til sín. „Þessi sköpunarþrá sem hún hafði, heillaði mig óskaplega mikið.“ Elísabet er eitt af þeim ljóðskáldum sem Kristjana valdi fyrir plötuna sína, en þar á meðal eru líka Jakobína Sigurðardóttir, Davíð Stefánsson og Halla Eyjólfsdóttir.

„Svo er bara eitthvað í genunum þínum, einhver þrá eftir að gera eitthvað. Einhver gyðja!

Það er fegurð í því þegar tvær listakonur leiða saman hesta sína þvert á tímans haf, en Elísabet semur ljóðin sín fyrir löngu síðan, mörgum áratugum áður en þeim rekur á fjörur Kristjönu, sem glæðir þau nýju lífi með lagi sínu og söngrödd. „Þegar ég fór að þora að búa til lög og leyfa öðrum að heyra, þá þurfti ég efnivið,“ segir Kristjana. „Ljóð skipta mig miklu máli, ég er svo rómantísk í mér. Ég er búin að syngja svo lengi og það eru svo margir tónar í höfðinu á mér.“ Kristjana brosir og við ræðum aðeins um það hvernig hún tekur til máls, þegar hún segir að hún hafi loksins farið að ‘þora’ að semja lög. „Kannski er þetta eitthvað í uppeldinu. Ég er yngst af 9 börnum og mamma mín var fertug þegar ég kom í heiminn. Maður var ekkert að trana sér fram, maður var bara,“ segir Kristjana. „Maður vill halda sig til hlés, en svo er bara eitthvað í genunum þínum, einhver þrá eftir að gera eitthvað. Einhver gyðja.“

Platan hennar Kristjönu sem kom út í haust, ‘Ég hitti þig’. Vínyl útgáfa er líka væntanleg. Mynd RH

Listræn fjölskylda

Kristjana er alin upp í Dalvík, nánar tiltekið í húsinu Ásbyrgi. „Ég er Dalvíkingur, en ég segi reyndar alltaf að ég sé Eyfirðingur,“ segir hún. Það eru fleiri listamenn í fjölskyldunni en ein systir Kristjönu er leikkona, önnur er söngkona og faðir Kristjönu var mikill söngmaður. „Það var alltaf Rás eitt í gangi, við hlustuðum mikið á Óskalögin og svona. Pabbi var kóramaður, bassi í Karlakór Dalvíkur og kirkjukórnum,“ segir Kristjana. „Mér fannst hann stórkostlegur. Besti söngvarinn.“ Eldri bróðir Kristjönu kynnti hana fyrir sönglaga- og dægurtónlist, og hún varð mjög hrifin af Billy Joel, til dæmis.

Feimin fyrst um sinn

Það er óhætt að segja að Kristjana hafi farið varlega af stað í því að koma fram á sviði, en hún segist hafa verið svolítið feimin. „Frumraun mín á sviði var ekki í tónlist. Ég fór fyrst á svið með Leikfélagi Dalvíkur, í Saumastofunni,“ rifjar Kristjana upp. Það reyndist heillaspor, vegna þess að þar kynntist hún manninum sínum, Kristjáni Eldjárn Hjartarsyni frá Tjörn. „Kristján kynnti mig fyrir sinni tónlist, sem var svona í ætt við trúbadoratónlist og vísnalög. Hann tróð upp í allskonar partíum og þar byrjaði ég að syngja. Ég laumaðist til þess að syngja með og radda sönginn hans og fannst það ofboðslega gaman. Bráðlega upp úr þessu verður svo Tjarnarkvartettinn til,“ rifjar Kristjana upp. Þar sungu saman hún og Kristján, bróðir Kristjáns og kona hans; Hjörleifur Hjartarson og Rósa Kristín Baldursdóttir. Tjarnarkvartettinn átti góðu gengi að fagna og þau ferðuðust víða. „Þetta var mjög góður skóli, þessi kvartett,“ segir Kristjana. „Eftir að hann leystist upp var ég samt alveg tilbúin í að gera eitthvað nýtt. Ég fór og safnaði lögum sem mig langaði að syngja ein.“

Fyrri sólóplötur Kristjönu; Þvílík er ástin (2000), Í húminu (2005), Tangó fyrir lífið (2011), Stjarnanna fjöld (2014).

Fyrsta sólóplatan

„Eftir Tjarnarkvartettinn fann ég eiginlega kjarkinn, eftir að vera feimin í öll þessi ár.“ Kristjana ákvað þá að hafa samband við Daníel Þorsteinsson píanóleikara og sú samvinna gerði gæfumuninn. „Það varð bara ekki aftur snúið eftir að ég byrjaði að vinna með Daníel, ég fékk svo líka Kristján Eldjárn Þórarinsson heitinn, gítarleikara, til liðs við mig,“ segir Kristjana. „Þessir tveir, og Jón Rafnsson, gerðu fyrstu sólóplötuna, ‘Þvílík er ástin’, með mér.“

Kvennatónleikar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

„Sjálfstraustið jókst með hverri plötunni, sem ég gaf út,“ segir Kristjana. „Allt í einu var ég komin á þann stað að þora að hafa samband við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands með hugmynd um tónleika.“ Það var árið 2015, sem var mikið kvennaár, enda 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. „Mér datt í hug að fá að syngja með konunum í sinfóníunni, lög við ljóð eftir konur. Þorvaldur Bjarni sem stjórnar hljómsveitinni tók rosalega vel í þetta en það þurfti að spýta í lófana og ég dreif mig í að semja lög.“ Kristjana fékk son sinn, Örn Eldjárn, til þess að útsetja lögin, en hann hefur einnig verið hennar hægri hönd við útgáfu nýju plötunnar. „Þetta var svo geggjað! Svo stórt, með þessari dásamlegu hljómsveit í Hofi.“ Lögin sem Kristjana samdi fyrir þessa tónleika urðu svo uppistaðan í nýju plötunni, ‘Ég hitti þig’.

„Það er svolítið skemmtileg uppgötvun, mér finnst ég loksins vera að kynnast sjálfri mér almennilega, svona á miðjum aldri.“

„Mér finnst ég bara vera nýfarin að semja, þannig séð. Ég byrjaði eiginlega á þessu eftir að ég fór að gefa út sólóplötur, en ekki af alvöru fyrr en núna,“ segir Kristjana. „Það er svolítið skemmtileg uppgötvun, mér finnst ég loksins vera að kynnast sjálfri mér almennilega, svona á miðjum aldri.“ Hún hlær og það er jafnvel svolítill söngur í hlátrinum hennar líka. „Maður á að gefa sér tíma með sjálfum sér, við erum svo sjaldan ein. Nema kannski á klósettinu!“ 

Suðrænt hugarástand í bílskúrnum á Tjörn

„Þegar ég ákveð að ég ætli að semja lag, þá fer ég niður í Golugerði og kemst í eitthvað ástand.“ Það kemur í ljós að Golugerði er bílskúrinn á Tjörn, sem var eitt sinn mjög illa einangraður, þannig er nafnið til komið. „Þó ég búi í þessum fallega fjallasal, þá langar mig oft í meira. Þá fer ég í huganum til Ítalíu, eða Krítar, eða eitthvað annað á suðrænar slóðir og sæki mér laglínur,“ segir Kristjana, en það er mikil tilfinning í tónlistinni hennar enda er stundum verið að grínast með það í fjölskyldunni að hún sé með suðrænt blóð í æðum og dramatísk eftir því. „Ég get alveg verið skapbráð. Fljót upp og niður,” segir Kristjana og hlær. Það er áhugaverð blanda sem verður til í lagasmíðum hennar, þar sem suðrænn blóðhitinn mætir köldu og dularfullu norðrinu. „Við erum hérna, fyrir norðan, í myrkrinu. Í tímans rás hefur verið kuldi og vosbúð og við syngjum gjarnan í moll,“ segir Kristjana.

Kristjana er nýfarin að prjóna, og hér er eitthvað hlýtt fyrir barnabörnin í fæðingu. Mynd RH

Með mömmu í handavinnunni

Kristjana er mikil fjölskyldukona, en hún á þrjú uppkomin börn sem öll eru tónlistarfólk meðal annars. Þau hjónin eiga orðið tvö barnabörn og eitt á leiðinni. Það er lítil og nett ermi á prjónunum hjá Kristjönu, en hún segist hafa nýlega byrjað að prjóna, eftir að hún varð amma. „Ég er mikil mömmustelpa,“ segir Kristjana, en hún var mjög náin mömmu sinni. „Ég fæ oft söknuð í hjarta þegar ég hugsa til mömmu eftir að hún féll frá. Mér finnst hún samt vera hjá mér þegar ég bý eitthvað til í höndunum. Við erum með svipaðar hendur og hún var mikil handavinnukona.“ Kristjana geymir gamla saumavél mömmu sinnar við ganginn inn í stofu, en þar hefur Kristjana stillt upp uppáhalds skónum sínum og gömlu saumaskærunum hennar mömmu. „Ég nota þau ennþá þó þau séu níðþung. En bara til þess að klippa efni, annað er stranglega bannað!“

Gangurinn á Tjörn. Gamla saumavélin, myndir af fjölskyldunni og saumaskærin hennar mömmu. Mynd RH

„Heyrðu, ég geri þetta bara. Ég lofa þér núna, ég ætla að prófa að semja einn texta. Eitt lag.“

Hummari af guðs náð

Kristjana er hummari. Hún sönglar meira og minna allan daginn. Upp úr humminu rís ef til vill stundum eitthvað meira. Hún rifjar upp þegar hún samdi óvænt jólalag í bílnum á leiðinni suður eitt stjörnubjart kvöld. „Ég keyri og Kristján sofnar við hliðina á mér. Svo byrja ég bara að humma. Stjörnurnar kölluðu eitthvað á mig. Lag og texti við jólalagið ‘Stjarnanna fjöld’ voru svo tilbúin í Hvalfjarðargöngunum!” Kristjana er hugsi þegar blaðamaður spyr hvort að hún vilji ekki semja fleiri texta sjálf. „Mér finnst það svo erfitt, ég er svo föst í að stuðlar og höfuðstafir þurfi að vera nákvæmlega réttir og allt þurfi að vera fullkomið. Ótrúlegt hvað maður er fastur í sér.“ Stuttu seinna er hún búin að skipta um skoðun. „Heyrðu, ég geri þetta bara. Ég lofa þér núna, ég ætla að prófa að semja einn texta. Eitt lag.“

Það verður gaman að sjá hvort að næsta plata Kristjönu verði með lagi og ljóði eftir söngkonuna sjálfa. Hvort sem af því verður eður ei, er óskandi að hún haldi áfram að skapa, og eflaust engin hætta á öðru. Slík er þörfin. „Ég er lagahöfundur. Og ég er bara svolítið grobbin af því, ég verð að viðurkenna það,“ segir Kristjana Arngrímsdóttir að lokum.

  • Útgáfutónleikar Kristjönu verða haldnir í Hofi 18. janúar.