Fara í efni
Menning

„Við erum í rauninni öll fáránleg“

Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri And Björk of course í Samkomuhúsinu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Ég hef svo mikla trú á leikhúsinu,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri And Björk, of course, sem verður frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar á föstudagskvöldið næsta. „Ég trúi að það geti gert eitthvað, haft áhrif á okkur út í samfélagið. Þó það gerist á hraða skriðjökuls, þá er þetta eitt elsta form samskipta og samkomu í samfélaginu, að koma saman og segja sögur. Tala saman og endursegja eitthvað sem hefur gerst eða eitthvað sem við upplifum, til þess að við getum skilið það saman.“ Leikhúsið er að verða síðasta vígið, þar sem fólk raunverulega kemur saman og upplifir eitthvað saman, í sama rými, bendir Gréta á. „Hér speglum við okkur, hlæjum og losum.“ 

Sverrir Þór, María Pálsdóttir, María Heba, Eygló Hilmars og Jón Gnarr í hlutverkum sínum. Myndir með viðtalinu eru teknar á æfingu. Ljósmyndari: Auðunn Níelsson

„Það er búið að vera alveg brjálæðislega gaman,“ segir Gréta,  „Við erum bara að byrja frumsýningarviku og erum að ná að sigla þessu í höfn. Við erum að komast að kvikunni, allt að fæðast.“ Það að komast að kvikunni, að sögn Grétu, merkir að listin sjálf verður ekki til fyrr en áhorfendur koma. „Þá í rauninni fæðist öll vinnan, sem við erum búin að leggja í þetta.“

Hvernig sviðsetjum við okkur í daglegu lífi, hvaða starfi gegnum við? Hvernig viljum við að aðrir upplifi okkur? Hvernig skapar manneskjan sjálfa sig og endurskapar?

Verkið And Björk of course er skrifað 2001/02 af Þorvaldi Þorsteinssyni og var eitt af verkunum sem vígði nýja sviðið í Borgarleikhúsinu árið 2002. „Eins og Þorvaldur segir sjálfur í formála verksins, þá er þetta ekki hefðbundið leikrit, heldur meira eins og ástand,“ segir Gréta. Sögupersónurnar eru sjö, staddar á sjálfshjálparnámskeiði hjá einhverjum bandarískum meistara sem er ekki á staðnum, en vinnur í gegn um leiðbeinanda. „Þetta er einhverskonar gerviheilun. Við fáum að kynnast fólki sem er mjög mannlegt og kunnuglegt, með allskonar kvilla, fodóma og bresti.“ Verkið er bæði sprenghlægilegt, en líka óviðeigandi og stuðandi, segir Gréta. 

 

 

„Þorvaldur er svo skemmtilegur höfundur, bæði sem leikskáld en líka sem myndlistarmaður,“ segir Gréta. „Hann er svo oft að vinna með þessa sviðsetningu sjálfsins. Hvernig við sviðsetjum okkur í daglegu lífi, hvaða starfi gegnum við? Hvernig viljum við að aðrir upplifi okkur? Hvernig skapar manneskjan sjálfa sig og endurskapar?“ Gréta segir að Þorvaldur hafi svo mikinn húmor fyrir mannlegu eðli, en á sama tíma svo mikla ást fyrir manneskjunni, sem alltaf skín í gegn. „Hann nálgast mennskuna af miklum húmor og kærleika.“

Við erum búin að hlæja okkur máttlaus hérna á æfingum, þetta er svo ofboðslega fyndið. Þessi húmor fyrir fólki í verkinu, minnir okkur á hvað við erum í raun öll fáránleg.

Persónurnar eru mjög fjölbreyttar, á ólíkum aldri. „Þetta eru kannski frekar erkitýpur, heldur en steríótýpur,“ segir Gréta. „En þetta er ósköp venjulegt fólk. Það eru frekar aðstæðurnar sem eru skrítnar. Við þekkjum þetta öll, til dæmis þegar við erum sett í eitthvað hópeflisverkefni, það er ekki öllum sem líður vel í slíkum aðstæðum.“ Gréta er spennt fyrir því að leyfa áhorfendum sjálfum að meta það hversu vel persónunum verksins gengur að heila sig í raun og veru. „Við erum búin að hlæja okkur máttlaus hérna á æfingum, þetta er svo ofboðslega fyndið. Þessi húmor fyrir fólki í verkinu, minnir okkur á hvað við erum í raun öll fáránleg.“

 

 

Það er alveg magnað að lesa þetta tuttugu árum síðar, fyrir mér er þetta eiginlega bara spádómur um framtíðina

„Verkið er skrifað fyrir samfélagsmiðla, fyrir hrun, fyrir me-too, fyrir Covid og fyrir sprenginguna í ferðamannabransanum á Íslandi,“ segir Gréta. „Það er líka stórt þema í verkinu, hvernig við seljum umheiminum hugmyndina um Ísland og Íslendinga. Til dæmis þetta með að allt hér sé best í heimi, hér er jafnréttið mest, engin hómófóbía, enginn rasismi. Allt hreint og tært. Það er alveg magnað að lesa þetta tuttugu árum síðar, fyrir mér er þetta eiginlega bara spádómur um framtíðina.“ Verkið er skrifað þegar hugmyndin um markaðssetningu Íslands er að fæðast. 

„Það er áskorun fyrir mig, sem listamann sem er að reyna að vera í samtali við samfélagið, að setja fram persónur sem fara algjörlega yfir mörk sem ég hef, sem manneskja,“ segir Gréta. „En þá komum við aftur að þessu sem ég sagði um Þorvald, að hann elskar manneskjuna og mennskuna. Ef sýningin sem sjálfshjálparnámskeiðið á að virka, þá þarf náttúrulega að hreinsa út allan þennan skít! Þá þýðir ekkert að gera, eins og við gerum svo oft hérna, að afneita því að eitthvað sé að. Það er allt í lagi heima hjá mér!

 

Hér má sjá allan leikarahópinn, F.v. María Pálsdóttir, Jón Gnarr, Davíð Þór Katrínarson, Eygló Hilmarsdóttir, Urður Bergsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og María Heba Þorkelsdóttir. Ljósmyndir: Auðunn Níelsson

Það er alveg ofboðslega gott að vera barn í Hrísey, en hins vegar ofboðslega erfitt að vera unglingur í Hrísey

Gréta Kristín er Hríseyingur, fædd og uppalin. „Hrísey er eiginlega svona micro-mynd af samfélaginu í heild. Það búa jafn margir þar og í svona meðal fjölbýlishúsi í Breiðholtinu,“ segir Gréta. „Maður sér einhvernvegin saumana svo vel, í svona samfélagi, sem er svona lítið. Ég held að það hafi haft áhrif á það hvernig ég horfi á hlutina. Það er alveg ofboðslega gott að vera barn í Hrísey, en hins vegar ofboðslega erfitt að vera unglingur í Hrísey,“ segir Gréta Kristín. „Það verður að finna sér eitthvað að gera og búa sér til sína eigin tilveru. Það held ég að hafi haft mikil áhrif á það að ég fór út í sviðslistir.“

 

 

Leikhúsið er bootcamp fyrir samkennd, þar horfum við á hugmyndir um annað fólk og reynum að tengja

„Það er erfitt að trúa því í dag, að allar manneskjur séu í grunninn góðar,“ segir Gréta. „Ég þarf að berjast fyrir því að halda í trúnna, á meðan við fylgjumst með þjóðarmorði í beinni í Palestínu, sjáum öfga-hægri öfl rísa upp og fá fylgi hjá þjóðunum í kring um okkur, bakslagið í hinsegin málunum og fleira. En hér kemur til dæmis leikhúsið inn. Án þess að dæma eða predika er hægt að velta upp spurningum og það sem ég leitast við, stöðugt, er að halda í sammennskuna. Samkennd er ekki tæmandi auðlind. Leikhúsið er bootcamp fyrir samkennd, þar horfum við á hugmyndir um annað fólk og reynum að tengja,“ segir Gréta að lokum.