Fara í efni
Menning

Verðandi styrkir unga listamenn áfram

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri MAk, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri og Þórleifu…
Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri MAk, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri og Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar menningarfélagsins Hofs.

Listsjóðurinn Verðandi mun áfram styrkja ungt listafólk næstu tvö ár í það minnsta. Samkomulag um rekstur og framlög til sjóðsins hefur verið endurnýjað.

Verðandi er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningarfélags Akureyrar (MAk). „Megintilgangur sjóðsins er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof sem vettvang fyrir listsköpun sína. Listsjóðurinn á að auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem Hof hefur upp á að bjóða, stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í húsakynnunum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði,“ segir í tilkynningu frá MAk í dag.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, undirritaði samkomulagið fyrir hönd bæjarins og segir það mjög mikilvægt. „Þetta fyrirkomulag jafnar stöðu þeirra sem vilja nýta Hof, gefur ungu fólki sérstaklega tækifæri og er líklegt til að stuðla að enn meiri fjölbreytni í viðburðahaldinu,“ segir bæjarstjórinn.

„Við fögnum því að framhald verður á samstarfinu því Verðandi sjóðurinn skiptir miklu máli fyrir unga listamenn og við fögnum því innilega að geta stutt við verkefnið,“ segir Þórleifur Stefán Björnsson formaður stjórnar Menningarfélags Hofs í tilkynningunni.

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri MAk, fagnar því einnig að félagið geti stutt grasrótarstarf í listum með þessum hætti.

Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á heimasíðu MAk, þar sem hægt er að sækja um styrki vegna viðburða sem fram fara í Hofi á tímabilinu ágúst 2022 til júlí 2023. Umsóknarfrestur er til miðnættis 5. maí. Smellið hér til að sækja um.