Fara í efni
Menning

Vaya Con Dios heiðruð á Græna hattinum

Tónleikar til heiðurs hljómsveitinni Vaya Con Dios verða haldnir á Græna hattinum á fimmtudagskvöldið, 17. mars. Guðrún Harpa Örvarsdóttir ætlar enn að feta í fótspor söngkonunnar Dani Klein og flytur nú lög með þessari þekktu belgísku hljómsveit í fjórða skipti á Græna hattinum ásamt einvalaliði tónlistarmanna; Valmar Väljaots leikur á hljómborð, víólu og harmoniku, Valgarður Óli Ómarsson á slagverk, Pétur Ingólfsson á bassa og Borgar frá Brúum á gítar.

Flutt verða lög af þremur fyrstu plötum hljómsveitarinnar sem eru þær Vaya con dios, Night owls og Time flies. „Áhugaverður músíkviðburður með mikla sérstöðu þar sem heyra má blöndu af ýmsum tónlistarstílum á borð við smooth jazz, soft rock, blues, soul, latin pop, gypsy og jazz rock,“ segir í tilkynningu.

Forsala miða er á graenihatturinn.is og er miðaverð 3500 krónur. Tónleikarnir hefjast klukkan 21.00.

Úr myndlist yfir í tónlist

Guðrún Harpa segir að þrátt fyrir að henni sé músíkin í blóð borin hafi hún ekki sinnt henni af einhverri alvöru fyrr en nú. Hún er dóttir Birnu Hermannsdóttur og Örvars Kristjánssonar heitins, sem var harmonikuleikari og söngvari og fékkst við músík meira og minna allt sitt líf. Hann stundaði einnig myndlist sér til gamans og málaði mikið af fallegum myndum í gegnum tíðina, segir dóttir hans.

„Auðvitað hef ég hugsað með sjálfri mér þar sem áhugi minn á söng og tónlist kviknaði ekki þegar ég var unglingur, hvort ég sé ekki bara orðin of gömul í dag, 48 ára, til þess að skipta um listgrein. Áður átti myndlistin hug minn allan og ég hef málað mikið en á síðustu árum hefur það verið tónlistin,“ segir Guðrún Harpa.

Fylgir hjartanu

„Ég geri þetta fyrst og fremst fyrir sjálfa mig því í tónlistinni finn ég fyrir svo miklu tjáningafrelsi, að ég tali nú ekki um hvað hún er mikil sálubót. Svo fyllist ég líka endalausu þakklæti þegar svona úrvals tónlistarmenn vilja vinna með mér í verkefnum samanber Vaya con dios. Þessa dagana er ég líka að vinna að útgáfu á nokkrum lögum. Þau eru bæði frumsamin og erlendar ábreiður og það geri ég ekki öðruvísi en með góðu fólki. Það má því segja að ég sé að fylgja hjartanu og láta drauma mína rætast í augnablikinu. Drauma og hugmyndir sem hvarflaði ekki að mér fyrir nokkrum árum að yrðu að veruleika. Lífið bíður upp á svo margt spennandi og skemmtilegt. En svo þarf að þora að taka skrefið í áttina að því þegar gáttir opnast fyrir slíku.“