Útgáfuhóf og leiðsögn í dag – Römm er sú taug

Safnasafnið á Svalbarðseyri býður í dag til útgáfuhófs, og leiðsagnar um sýninguna Römm er sú taug, í tilefni útkomu nýs kvers sem sagnfræðingurinn og fyrrverandi þjóðskjalavörðurinn Eiríkur G. Guðmundsson tók saman. Kverið fjallar um líf og listsköpun Þorbjargar Halldórsdóttur (1875–1979) og ber titilinn Útsaumsverk Þorbjargar Halldórsdóttur frá Strandarhjáleigu.
Dagskráin hefst kl. 14 og viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn. Tilboðsverð verður á kverinu og listakortum.
Þorbjörg Halldórsdóttir frá Strandarhjáleigu.
Þorbjörg, sem var lengi vinnukona, hóf að sauma myndverk um sjötugt. „Hún skapaði sín eigin útsaumsmynstur sem einkennast af litadýpt, breytilegum áferðum og persónulegum minningum. Útsaumsverk Þorbjargar eru fjölmörg og má telja að þau hafi verið nýmæli í listsköpun á Íslandi,“ segir í frétt frá Safnasafninu.
Strandarhjáleiga var algengasta myndefnið en hún gerði ekki færri en sex verk sem sýna húsakynni hennar kæra æskuheimilis. Elsta þekkta verk Þorbjargar er mynd af Ölfusárbrúnni sem var reist 1945 en verkið er talið saumað 1946. Síðasta verk hennar er frá 1975, þegar hún var 100 ára, en í ár eru 150 ár liðin frá fæðingu hennar. Þorbjörg lést á Hrafnistu í Reykjavík 4. apríl 1979, 104 ára gömul.
Dagskráin í heild:
14:00 – Móttaka og kaffi
14:15 – Eiríkur G. Guðmundsson sagnfræðingur kynnir útgáfu sína
14:30 – Leiðsögn um sýninguna Römm er sú taug
15:00 – Spjall og kaffiveitingar