Fara í efni
Menning

Utanveltumaðurinn sem vildi rafvæða Ísland

Frá kynningu á bókinni um Frímann, á Amtsbókasafninu á Akureyri nýverið. Frá vinstri: Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir sambýliskona Valdimars, Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Íslands, og Valdimar Gunnarsson.

Nýlega kom út bókin Utanveltumaður, sem fjallar um löngu gleymdan mann, Frímann Arngrímsson, „sem vann sér það til frægðar að finna upp rafmagnið, ef svo má að orði komast,“ eins og segir í tilkynningu frá útgefanda. Höfundur er Valdimar Gunnarsson, sem kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri í áratugi.

„Hér er í fyrsta sinn gerð grein fyrir allri ævi og störfum þessa sérkennilega manns, sem vildi rafvæða Ísland. Hann fæddist árið 1855 en lést á Akureyri, fátækur og flestum til ama árið 1936. Varð meira að segja skotspónn bæjarbúa, ekki síst drengja sem stríddu honum á götu úti. Frímann liggur óbættur hjá garði, svo óbættur að hann á ekki einu sinni legstein í kirkjugarðinum á Akureyri, þar sem hann fór í moldina,“ segir útgefandinn, bókaútgáfan Tindur, í tilkynningunni.

Frímann lauk háskólanámi í Kanada og starfaði á vegum Kanadastjórnar. Síðar vann hann á tilraunastofum í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Eftir skamma dvöl þar fór hann til Frakklands þar sem bjó við kröpp kjör í 17 ár. Heim kominn til Íslands barðist hann hatrammlega fyrir hugsjón sinni að rafvæða Ísland en allir ráðamenn snerust gegn honum og lítilsvirtu tillögur hans, að því er segir í tilkynningunni. „Síðar kom í ljós að margt af því sem hann sagði og margir útreikningar hans varðandi vatnsafla og virkjanir reyndust réttar, en í hans tilfelli sannaðist að samtímamenn eiga það gjarnan til að hunsa og jafnvel fyrirlíta frumherja.“