Fara í efni
Menning

Úr fjöru í drullupoll í Verksmiðjunni

Myndlistarsýningin Úr fjöru í drullupoll / From the shore to the Mudpool verður opnuð í Verksmiðjunni á Hjalteyri í dag klukkan 14.00.

Sýningin hefur að umfjöllunarefni athöfnina „cruising“ – eða (sveima)“ sem snýr að öllum kynjum og sjálfsmyndum, að því er segir í tilkynningu. „Sýningin er innblásin af því hvernig listamenn og hommar fóru um og bjuggu til list í og við yfirgefnu Waterfront bryggjuhúsin í New York City á áttunda áratugnum. „Cruising“/„sveima“ var og er enn aðallega iðja samkynhneigðra karla, í þessari sýningu notum við hana sem útgangspunkt, tæki til að endurheimta rými og dreyma um aðrar leiðir til að vera til í heiminum. Í samræðum við listaverkin og rýmið bjóðum við gestum að sveima og ráfa eftir ólíkum slóðum langana og um heima hinsegin vistfræði.“

Úr fjöru í drullupoll

Texti eftir Mörtu Orlando. Þýðing: Kari Ósk Grétudóttir

„Við skulum byrja á að skoða athöfnina að ganga út frá metafórunni löngunarslóð e: desire path; hugtak sem er yfirleitt notað innan umferðarskipulags en á líka við um sjálfsprottna göngustíga, veiðimannastíga, slóða hjarðardýra, kúastíga, fílaslóð, geitaslóð, fjárstíga, ómerktar gönguleiðir og slóð veiðidýrsins, sú sem veiðimenn fylgja þegar þeir leita uppi bráðina, slóðar sem myndast þar sem dýr og menn eru sífellt að troða jarðveginn niður frá einum stað til annars. Slóðin gefur yfirleitt til kynna auðveldustu eða stystu leiðina á milli staða. Löngunarslóðar myndast einnig þar sem fólk hefur tekið upp á að stytta sér leið vegna þess að skipulögðu vegirnir eru krókaleiðir, ófærir eða einfaldlega ekki til staðar. Löngunarslóðar hafa gjarnan verið táknmynd fyrir anarkisma, innsæis-hönnun, sköpun einstaklingsins og visku fjöldans. Við skulum ganga í stöðugu flæði án þess að hafa tiltekinn áfangastað í huga, læra af landslaginu, mynda hljóð og bergmála náttúruna. Fyrst við erum byrjuð að fylgja þessum stígum, hvort sem það er á innsæinu eða kerfisbundið, þá skulum við fara nokkra áratugi aftur í tíma, til New York á áttunda áratugnum. Þá var algengt að lista- og hinsegin fólk gengi meðfram The Waterfront Piers til þess að kanna mörkin milli reynslu og löngunar. Þarna mitt á milli hafsins og steypunnar fundu þessir útlagar samfélagsins andrými til þess að brjótast undan norminu og villast viljandi af „réttu brautinni“. Að ganga á jöðrum borgarinnar, í niðurníðslunni þar sem rústir kapítalismans birtust áður í yfirgefnum vöruskemmum en eru aðeins minningar í dag, göfgaðar sem nakin vofa. Okkur langaði að vinna með þetta minni, þennan draug og búa til tengingu milli tveggja ólíkra staða og stefna saman listamönnum og rithöfundum sem vinna með hinsegin menningu og Rúntinn e: cruising sem fagurfræðilega aðferð og leið til þess að endurheimta rými og svæði með því að ferðast fótgangandi um þau. Rúnturinn sem er þekkt fyrirbæri í menningu hinsegin fólks gegnir hér því hlutverki að vera hugmyndaleg athöfn sem tengir saman Verksmiðjuna á Hjalteyri og The Waterfront Piers í New York. Listamennirnir nálgast viðfangefnið á fjölbreyttan hátt og vinna með ólíka miðla í samtali sínu við rýmið. Verksmiðjan (og listaverkin) eru í senn aðalleikari og áhorfandi að sýningunni. Sambandið milli ytra og innra rými byggingarinnar kollvarpast eins og möbíus-renningur. Við könnum rýmið út frá ólíkum sjónarhornum, sem listamenn, sýningarstjórar, sem ferðalangar, víxlum hlutverkum, til þess að bjóða upp á fjölbreytt sjónarmið og endurvekja Drauginn. Viðfangið sem beint er sjónum að verður að virkum geranda sem horfir samtímis aftur til The Waterfront Piers og fram til Verksmiðjunnar. Með því að nota þessa Heterótópíu sem útgangspunkt getum við tekist á við vofu staðar sem ekki er lengur til, en þar sem enn eru til leifar og rústir frá staðnum getum við endurvakið Genius Loci (verndarandi staða) og þannig gert tilkall til svæða sem tengjast hinsegin vistfræði, skilið á milli óbyggðarinnar og þess tamda í náttúrunni og byggt upp lesbíska heimsmynd sem tengist Rúntinum sem þó var aldrei lesbísk venja eða iðja tengd sjálfsmynd kvenna. Markmið sýningarinnar er einnig að tengja saman útlaga hins staðlaða samfélags og búa til hringborð umræðna og rannsókna. Við viljum spyrja spurninga sem krefjast ekki endilega skýrra svara og reyna að svara þokukenndum spurningum um eðli félagslegra rýma, sem haldið var frá hinsegin fólki og konum, með því að skoða þversagnir, langanir og hugsjónir og horfa á The Waterfront Piers sem erkitýpu mannlegrar og listrænnar tjáningar.“