Fara í efni
Menning

Uppáhaldslögin okkar og Fjárlög í fínum fötum

Uppáhaldslögin okkar og Fjárlög í fínum fötum

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju hafa sett svip sinn á menningarlífið á Akureyri frá árinu 1987 og þeir eru önnur elsta tónleikaröðin á Íslandi. Sumartónleikar í Akureyrarkirkju eru ómissandi þáttur í Listasumri ár hvert. Aðgangur er ókeypis en tekið við frjálsum framlögum.

Fyrstu Sumartónleikar þessa árs voru síðasta sunnudaginn í júní, en haldið verður áfram allan júlímánuð. Það má því setja á dagskrána og í minnisbókina að klukkan 17 á sunnudögum í júlí verða tónleikar í Akureyrarkirkju.

Þann 4. júlí verða tónleikar sem nefnast Uppáhalds lögin okkar. Þá munu Ívar Helgason söngvari, Jónína Björt Gunnarsdóttir söngkona og Valmar Väljaots píanóleikari með meiru halda skemmtilega fjölskyldutónleika. Tónlist úr Pílu Pínu, Skilaboðaskjóðunni, Pocahontas, og frá Daða og Gagnamagninu mun hljóma ásamt fleiri þekktum lögum, en tónleikarnir hefjast eins og ævinlega klukkan 17:00. Fleiri gætu bæst við og tekið lagið eða sporið og allt stefnir í að þetta verði ævintýraleg fjölskylduskemmtun.

Þriðju tónleikarnir verða sunnudaginn 11. júlí kl 17:00. Þá kemur fram tríóið í Gadus Morhua, en þar eru á ferð Björk Níelsdóttir, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson en þau nefna tónleikana sína Fjárlög í fínum fötum. Samhljómur langspils og barokksellós er útgangspunktur hópsins, en tónlistarsköpunin einkennist „af einhvers konar þjóðlagausla, þar sem forneskjulegur hljómur gamla baðstofuhljóðfærisins og þokkafullir meginlandstónar barokksellósins skapa einhvers konar baðstofubarrokk“ eins og segir í kynningu á tónleikunum. Ef til vill vær rétt að kalla þetta sparifataútgáfu eða endurskoðun á Fjárlögunum alkunnu, Íslensku söngvasafni sem kom út á árunum 1915-1916 og hafa verið sungin á nánast hverju heimili í rúmlega öld. Auk þess mun Gadus Morhua flytja frumsamin lög í anda Fjárlaganna.

Því má svo bæta við að upplagt er að skjótast að loknum tónleikunum austur í Skjólbrekku í Mývatnssveit, þar sem Fjárlögin verða kyrjuð langt fram eftir kvöldi í anda Jóns heitins Stefánssonar, organista og kantors. Sú samkoma hefst klukkan 19.30.