Fara í efni
Menning

Undiralda – Jónína Björg sýnir í Mjólkurbúðinni

Jónína Björg Helgadóttir, myndlistarmaður, opnar á morgun, laugardag, sýninguna Undiralda í Mjólkurbúðinni í Listagilinu. 

Listakonan sýnir málverk og teikningar, allt ný verk – „málverkin eru svo splúnkuný að sum þeirra verða mögulega enn blaut þegar sýningin opnar. Og svo sannarlega líta þau líka út fyrir að vera blaut,“  segir í tilkynningu. Sýningin stendur til 22. október. Opið er laugardaga og sunnudaga frá kl. 14 til 17 og eftir samkomulagi.

Í tilkynningu segir að titill sýningarinnar gefi einhverja vísbendingu; verkin séu mjög náttúruleg, þar sem konan sé allsráðandi. Hún virðist hafa fundið sig í nálægð við hafið.

Hafið togar í mig

„Hafið er svo eitthvað sem togar alltaf í mig. Þegar ég bjó erlendis, og hafið var ekki eitthvað sem ég sá á hverjum degi þá byggðist upp þörf til að komast að sjónum, og vikulega varð ég að fara niður að sjó til að hlusta á hann, heyra ölduniðinn, sjá vatnið flæða yfir steinana, og flæða frá... Fæst okkar hér vel norðan við miðbaug sjáum svo nokkuð af sjávarbotninum og lífinu þar. En fjaran gefur vísbendingar,“ segir Jónína Björg.

Þetta er áttunda einkasýning listakonunnar, sem býr og vinnur á Akureyri. Jónína Björg er með vinnustofu í elsta húsi bæjarins, Laxdalshúsi, þar sem hún rekur einnig veitingastaðinn Majó með manninum sínum, Magnúsi Jóni, og þar geta þau tvinnað saman mat og myndlist, enda eru hennar listaverk uppi um alla veggi.

Jónína Björg útskrifaðist af fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2015 og hefur síðan unnið að eigin listsköpun, verið verkefnastjóri listaverkefnisins Rótar sem fór fram á Akureyri í mörg sumur, og hún var einnig ein stofnmeðlima listahópsins Kaktus. Hún hefur sýnt víða hérlendis sem og erlendis, og var síðast með einkasýningu í Toronto í Kanada.

Öll eru velkomin á opnun sýningarinnar á morgun, segir í tilkynningu. Léttar veitingar í boði