Fara í efni
Menning

Tvær sýningar opnaðar í Listasafninu

Tvær sýningar opnaðar í Listasafninu

Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri á laugardaginn, 7. maí: Nemendasýning Myndlistaskólans á Akureyri, Sjónmennt 2022, og útskriftarsýning nemenda listnáms- og hönnunarbrautar VMA, Spurningarmerki.

„Það dylst engum sem skoðar verk þeirra myndlistarmanna og hönnuða sem brautskráðir eru að loknu þriggja ára námi í sérnámsdeildum Myndlistaskólans á Akureyri að þar eru á ferð sterkir einstaklingar sem taka fag sitt alvarlega og hagnýta sér til fulls þá reynslu sem þeir hafa öðlast,“ segir í tilkynningu frá Listasafninu.

„Sjálfsskoðun er mikilvæg og gerir þá kröfu til nemandans að hann nái að yfirstíga nánd sína og birta viðfangsefni sitt á þann hátt að veki áhuga áhorfandans. Það getur verið snúið, en styrkleiki nemandans felst í hnitmiðaðri, myndrænni framsetningu verkanna og kunnáttu til að miðla henni á sem sterkastan hátt til áhorfandans. Myndræn framsetning verkanna er hluti af hugmyndinni og gegnir lykilhlutverki í að miðla áhrifunum til áhorfandans.“

Nemendur Myndlistaskólans:

 • Birgitta Sól Helgadóttir
 • Guðný María Nínudóttir
 • Heiðdís Buzgò
 • Iðunn Lilja Sveinsdóttir
 • Sigríður Dagný Þrastardóttir
 • Sigríður Halla Sigurðardóttir
 • Tereza Kociánová
 • Þorsteinn Viðar Hannesson

„Sýningar á lokaverkefnum nemenda hafa lengi verið fastur liður í starfsemi listnáms- og hönnunarbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri. Sýningarnar eru tvær yfir árið, annars vegar í lok vorannar og hins vegar í lok haustannar. Þetta er áttunda árið í röð sem þær eru haldnar í samstarfi við Listasafnið á Akureyri.

Við undirbúning slíkra sýninga velja nemendur sér verkefni eftir áhugasviði þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér nýja miðla eða dýpka skilning sinn á þeim sem þeir hafa áður kynnst. Að baki verkanna liggur hugmynda- og rannsóknarvinna og leita nemendur víða fanga í eigin sköpunarferli, allt eftir því hvað hentar hverri hugmynd og þeim miðli sem unnið er með.

Samhliða öðru námi fá nemendur eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samtali og samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem frumkvæði, hugmyndaauðgi og öguð vinnubrögð eru lögð til grundvallar.“

Nemendur VMA:

 • Anna Catherine Weand Jónsdóttir
 • Berglind Anna Erlendsdóttir
 • Emma Þöll Hilmarsdóttir
 • Guðbjörg María Ívarsdóttir
 • Katarzyna Kozlowska
 • Katrín Nicola P Vilhjálmsdóttir
 • Kristín Ásmundsdóttir
 • Linda Elíasdóttir
 • Sigríður Erla Ómarsdóttir