Fara í efni
Menning

Tvær eilífðir milli 1 og 3 og Nýtt af nálinni

Tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri á morgun, laugardag 25. mars kl. 15.00. Annars vegar sýning Söru Bjargar Bjarnadóttur, Tvær eilífðir milli 1 og 3, og hins vegar sýning Guðjóns Gísla Kristinssonar, Nýtt af nálinni, sem er hluti af listahátíðinni List án landamæra.

Tvær eilífðir milli 1 og 3

Sara Björg Bjarnadóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2015. Hún hefur sýnt víða á Íslandi og einnig í Berlín, Vilníus, Los Angeles, Aþenu og London.

Í tilkynningu frá safninu segir að Sara Björg kafi „út í rýmið og leyfir líkamlegri tengingu sinni við það að leiða sig áfram í framsetningu þessa verks – verks sem reynir að fanga tilfinningu, ástand eða tíma sem orð ná ekki utan um. Óáþreifanleg minning af nýliðnu tímabili stöðnunar.“

Eftir henni er haft: „Þú gengur meðfram sjávarsíðunni. Virðir fyrir þér óendanleika sjóndeildarhringsins en speglar inn á við, þar er heldur engan endi að finna. Til að ná skerpu þarf að afmarka. Þú gengur inn, rýmið er afmarkað, afmarkað af líkama, framlenging af líkama. Líkami og rými eru eitt og hið sama en aðskilin í senn, eins og tveir vökvar í sama máli. Hugsun er líkamleg, það býr viska í líkamanum. Milli huga og líkama eru huglæg skil; tveir dropar í sama vatni. Vitundin svamlar milli líkama, huga, rýmis og allra rásanna sem flæða þar á milli,“ segir Sara Björg.

Nýtt af nálinni

Markmið Listar án landamæra er að vinna að menningarlegu jafnrétti fyrir fatlað listafólk. Verkefnið stendur fyrir árlegri hátíð sem sýnir öll listform eftir bæði fatlað og ófatlað listafólk. Hátíðin fagnar 20 ára afmæli í ár og er Listasafnið á Akureyri nú þátttakandi í fyrsta sinn.

Guðjón Gísli Kristinsson sýndi fyrstu útsaumsmyndina sína á sýningu í Sólheimum sumarið 2020 og hefur síðan sýnt á samsýningum Listar án landamæra í Reykjavík og MeetFactory í Prag. „Hann vinnur út frá ljósmyndum af raunverulegum fyrirmyndum og teiknar eftir þeim áður en verkið fer á strammann, þar sem það er saumað út af elju og ástríðu. Myndefni Guðjóns Gísla eru ýmist nánasta umhverfi eða íslenskt landslag, en nýlega hefur hann leitað innblásturs í hönnunartímarit og innanhússarkitektúr. Óháð myndefninu má sjá samhljóm í litavali, mynstrum og handbragði.“

Úr verki Söru Bjargar Bjarnadóttur.