Fara í efni
Menning

Troðfull Glerárkirkja í „Hæ-Tröllum“ veislunni

Valmar Väljaots stjórnandi Karlakórs Akureyrar var í góðum gír á tónleikunum. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson.

Bekkurinn var þétt setinn og gleðin við völd í Glerárkirkju á laugardaginn þar sem söngveislan „Hæ-Tröllum“ var haldin í áttunda sinn. Þar sameinuðu fjórir karlakórar krafta sína, alls um 150 söngvarar og tónleikagestir voru um 350.

Sem fyrr var það Karlakór Akureyrar - Geysir sem stefndi öðrum kórum til bæjarins, nú í samstarfi við Karlakór Eyjafjarðar, en þátttakendur auk þeirra voru að þessu sinni Karlakór Kópavogs og Karlakór Dalvíkur. Kórarnir fluttu nokkur lög hver fyrir sig og sameinuðu síðan krafta sína og fluttu nokkur klassísk lög úr sögu íslensks karlakórasöngs. 

Valmar Väljaots stjórnaði Karlakór Akureyrar og síðan kórunum öllum eins og herforingi og Alexander Smári Kristjánsson Edelstein lék með á píanó.

Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson