Fara í efni
Menning

Tónverkið „Hver vill hugga krílið?“ í Hofi

Tónverkið „Hver vill hugga krílið?“ verður flutt í Hofi á sunnudaginn, 27. mars, klukkan 14.00. Verkið, sem er eftir Olivier Manoury, er fyrir barnakór, hljómsveit og sögumann. Manoury samdi það við sögu Tove Jansson í þýðingu Þórarins Eldjárn.

„Ævintýrið segir frá litlum dreng sem býr einn úti í skógi. Hann er mjög feiminn og þorir ekki að vingast við nokkurn fyrr en hann hittir litla stúlku sem er enn hræddari við lífið en hann,“ segir í tilkynningu. „Þá finnur hann kjarkinn og sagan endar á því að þau ákveða að sigla burt á bát með fílifjonkunum. Óttinn víkur fyrir gleði og vináttu. Krílið og Stráið hugga hvort annað, nú hafa þau eignast vin!“

Litríkum myndum Tove Jansson er varpað upp á meðan á flutningi verksins stendur. Verkið tekur um 40 mínútur í flutningi og er við hæfi barna á öllum aldri.

Kórarnir sem syngja eru:

  • Barnakórar Akureyrarkirkju – stjórnandi Sigrún Magna Þórsteinsdóttir
  • Barna- og æskulýðskór Glerárkirkju – stjórnandi Margrét Árnadóttir

Hljómsveitina skipa:

  • Olivier Manoury, bandoneon
  • Edda Erlendsdóttir, píanó
  • Eggert Pálsson, slagverk
  • Richard Korn, kontrabassi

Sögumaður er Eyjólfur Eyjólfsson. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson

Verkið var fyrst flutt í Langholtskirkju árið 2019 og í framhaldinu kviknaði sú hugmynd að stækka vekefnið og flytja það víðar með fleiri barnakórum. Það varð úr og verkið var næst flutt á Ísafirði með Barnakór Tónlistarskóla Ísafjarðar, Stúlknakór Tónlistarkóla Ísafjarðar og Graduale Futuri. Þaðan átti leiðin að liggja til Akureyrar, í Skálholt og loks í Hörpu. Af því varð ekki, ekki fyrr en nú tveimur árum síðar.