Fara í efni
Menning

Tónlistarsmiðja fyrir 12-16 ára í Rósenborg

Þriggja daga tónlistarsmiðja fyrir 12-16 ára verður í Rósenborg dagana 19.-21. júlí klukkan 17:00-19:00. Ekki eru gerðar kröfur um kunnáttu eða reynslu ungmennanna, aðeins áhuga á tónlistarsköpun.

Aðallega verður notast við tónlistarforritið Soundtrap og er hægt að nota það í fartölvum, símum eða spjaldtölvum og er mælt með að þátttakendur mæti með slíkt tæki á smiðjuna. Einnig mega þátttakendur taka með sér hljóðfæri eða annan búnað ef þeir eiga það.

Farið verður yfir taktagerð, textagerð, laglínur, upptökur og að lokum munu þáttakendur semja og taka upp eigin lög í litlum hópum með hjálp kennara.

Námskeiðið er kjörið fyrir alla sem hafa áhuga á rappi, söng, hljóðfæraleik, taktagerð, textaskrifum eða hafa bara almennt áhuga á því að skapa.

Umsjón með námskeiðinu hefur Jóhannes Ágúst, sem lét til sín taka sem gítarleikari og tónskáld hér á Akureyri fyrir fáum árum, en hann útskrifaðist með BA gráðu í tónlist úr Linnéuniversitet í Svíþjóð með sérhæfingu í lagaskrifum og pródúseringu. Hann starfar nú sem pródúser og lagahöfundur í Reykjavík og hefur unnið með ýmsum íslenskum popp og hiphop listamönnum sem lagahöfundur og pródúser.