Fara í efni
Menning

Tónlistarkennarar sóttu innblástur til Tenerife

Hópurinn fyrir utan Casa de la Música y el sonido sem er tónlistarsafn á austurhluta Tenerife. Þar fékk hópurinn m.a. að upplifa hvernig tónlist er notuð til þess efla vöxt í gömlu drekatréi á lóð safnsins.

Tónlistarkennarar við Tónlistarskólann á Akureyri (TónAk) fóru nýlega í námsferð til Tenerife. Meginmarkmið ferðarinnar var að heimsækja tónlistarskóla á eyjunni og kynna sér tónlistartengda starfsemi.

„Ferðin var bæði áhugaverð og gagnleg. Fyrir það fyrsta þá kom á óvart hversu mikil gróska er í tónlistarlífinu á eyjunni. Tónlistarkennsla er kannski ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar Tenerife er nefnd á nafn en staðreyndin er sú að fjölmargir og fjölbreyttir tónlistarskólar eru á eyjunni, sem margt má læra af,“ segir Þórarinn Stefánsson píanókennari við TónAk og einn af skipuleggjendum ferðarinnar.

Karnivalið var í fullum gangi á Tenerife þegar hópurinn var þar í febrúar og því var tilvalið að kynna sér sögu karnivalsins sem hefur sterka tengingu við tónlist heimamanna. Hér er hópurinn á karnival safninu í Santa Cruz þar sem brugðið var á leik og búningar mátaðir.

Hópurinn heimsótti tvo skóla í ferðinni, annar var einkaskóli en hinn rekinn af sveitarfélaginu Santa Cruz de Tenerife. Þá heimsótti hópurinn einnig tónlistarsafn, tónleikahöll, fór á tónleika og sinnti hópefli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kennarar Tónak halda erlendis í leit að þekkingu og innblæstri því á tveggja ára fresti er venjan að farið sé í álíka sí- og endurmenntunarferðir. Áður hefur skólinn farið til Rómar, Budapest, Brüssel og Kaupmannahafnar. Ferðin til Tenerife var langþráð því vegna Covid hafa engar námsferðir verið farnar undanfarin fjögur ár. Beint flug Niceair spilaði inn í valið á áfangastaðnum að þessu sinni. Þá höfðu skólayfirvöld einnig frétt af velheppnaðri námsferð Tónlistarskóla Skagafjarðar til Tenerife á síðasta ári og því var ákveðið að kanna þann möguleika.

Kennarar TónAk heimsóttu EMA skólann í Tacoronte og fylgdust þar m.a. með trommukennslu. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám, t.d. fjarkennslu á tæknisviði í hljóðupptökutækni og nám fyrir plötusnúða.

Tónlistarkennsla allt niður í eins árs

„Ferðin skilur fyrst og fremst eftir hugleiðingar hjá hópnum í þá átt hvað hvort og hvernig Tónlistarskólinn á Akureyri getur betur sinnt yngri nemendum en í báðum skólunum sem við heimsóttum var mikil áhersla lögð á námsframboð fyrir unga nemendur, allt niður í eins árs. Það fannst okkur mjög áhugavert og okkur lék forvitni á að vita hvaða aðstaða og fagþekking þyrfti að vera til staðar til að nám fyrir þennan yngsta aldurshóp gæti orðið markvisst og gott,“ segir Þórarinn og heldur áfram; „Tónmenntakennsla í grunnskólum á Akureyri er því miður í sögulegu lágmarki og við verðum mjög vör við það í okkar starfi, bæði í aðsókn í skólann og líka í því hversu illa undirbúnir nýir nemendur koma inn til okkar. Þeir koma svolítið „blanco“ inn í námið, hafa lítið sungið og þekkja fá lög. Börn í dag læra lítið utanbókar, eins og t.d. ljóð, og það er ákveðin hnignun í mínum huga. Þetta verður þess valdandi m.a. að framfarir byrjenda verða hægari og ánægjan af náminu þ.a.l. í mörgum tilfellum ekki eins mikil. Þannig að maður veltir fyrir sér hvernig tónlistarskólinn geti komið fyrr inn í tónlistarkennsluna og náð betri tengingu milli skólans og barnafjölskyldna. Heimsóknin skildi klárlega eftir pælingar í þá átt hvaða aðstæður þurfa að vera til staðar ef vilji er til þess að bjóða upp á tónlistarnám fyrir yngri nemendur, því það er þörf og sóknarfæri þar.“

Casa de la Música y el sonido tók vel á móti tónlistarkennurunm á Akureyri. Námsferðin var í heild sinni bæði gagnleg og áhugaverð að sögn Þórarins Stefánssonar kennara við Tónak.

Tónlist sem örvar og fegrar alrýmið

Fyrir utan skólaheimsóknirnar þá heimsótti hópurinn einnig tónlistarsafn í einkaeigu í afar fallegu húsi. „Þar var tekið virkilega vel á móti okkur og við hlýddum á tónlist og skoðuðum gömul hljóðfæri. Það sem var þó einna áhugaverðast við þá heimsókn var að sjá stórt drekatré sem átti að fella en staðarhaldarinn og fjölskylda hans sáu aumur á því og létu færa það á flötina fyrir framan safnið. Þar var búið að setja stillansa í kringum tréið til að styðja við það. Eins var búið að byggja glæsilegt svið fyrir framan tréið þar sem tónlistarmenn geta komið og spilað fyrir tréð til að örva vöxt þess. Þetta minnti mann sannarlega á kjarna þess sem við erum að gera með tónlistariðkun, þ.e.a.s. að tónlist á ekki að snúast um að fylla tónleikasali og selja aðgang sem er svo sannarlega ekki á allra færi að reiða fram, heldur fyrst og fremst um að örva og fegra alrýmið.“

 Fyrir utan Escuela Municipal de Música í höfuðborginni Santa Cruz de Tenerife en skólinn er staðsettur í afar fallegu gömlu húsi sem gert var sérstaklega upp fyrir skólann fyrir um tíu árum..

Karnivalið í fullum gangi

Þá vildi einnig svo skemmtilega til að hið árlega karnival heimamanna var í gangi í höfuðborginni þegar hópurinn var úti en karnivalið er önnur stærsta karnivalhátíð heims á eftir hinu fræga karnivali í Rio de Janeiro í Brasilíu. Karnivalhátíðarhöldin hafa sterka tengingu við tónlist og spuna og fékk hópurinn m.a. að kynnast tónmenningu innfæddra á útitónleikum. Aðspurður hvert kennarar Tónak haldi svo næst segir Þórarinn að hann reikni með því að beint flug frá Akureyri ráði því en næsta ferð er áætluð eftir tvö ár. „Í raun gætum við alveg farið aftur til Tenerife því það er nóg að gerast í tónlistarlífinu þar sem væri gaman að kynna sér betur og einnig að dýpka og rækta þau tengsl sem mynduðust í þessari ferð.“