Fara í efni
Menning

Tónleikasýning á Hárinu um aðra helgi

Tónleikasýning á Hárinu um aðra helgi

Það er sannarlega engu logið þegar sagt er að HÁRIÐ sé einhver vinsælasti söngleikur veraldar. Þessi hippasöngleikur sem boðaði ást og frið í stað stríðs og hernaðar var frumsýndur á Broadway 17. október 1967 og gagnrýni á stríð Bandaríkjamanna erlendis, sérstaklega í Viet Nam, var kjarni verksins. En boðskapurinn á alltaf við og sagan sýnir að söngurinn og leikurinn úr smiðju Gerome Ragni, James Rado og Galt McDonald á eilífa skírskotun til veraldarinnar.

Hárið tókst á flug og var sýnt árum saman í stærstu leikhúsum stórborga, en til Íslands kom það 1971 þegar Leikfélag Kópavogs setti það á svið í Glaumbæ, og margir fóru aftur og aftur til að njóta þessa unaðar í botn. Síðan hefur Hárið verið sett á svið víða um land. Eftirminnilegar eru meðal annarra sýningar Leikfélags MA í Samkomuhúsinu 2002 og sýning Silfurtunglsins í Svarta kassanum á sviði Hamraborgar í Hofi 2011.

Stundum er Hárið sett upp sem söngleikur en stundum sem tónleikar. Tónleikasýning á Hárinu verður í Hamraborg í Hofi laugardaginn 21. ágúst klukkan 20.00. Að vísu má segja að þetta séu aðeins meira en tónleikar því flytjendur munu örugglega bregða á leik í túlkun sinni. Þeir eru Arnþór Þórsteinsson, Árni Beinteinn, Hafsteinn Vilhelmsson, Ívar Helgason, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Rán Ringsted og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Auk þeirra kemur fram sönghópurinn Rok. Leikstjóri er Aníta Ísey Jónsdóttir, tónlistarstjóri Guðjón Jónsson og framleiðandi fyrir hönd Rún viðburða, sem er nýtt viðburðafyrirtæki, er Jónína Björt Gunnarsdóttir. Viðburðurinn er styrktur af Menningarsjóði Akureyrar.

Það verður örugglega unaðslegt að njóta enn á ný tónlistarinnar úr Hárinu og jafnvel raula með í þessari einu sýningu á Hárinu að þessu sinni. Það verður með öðrum orðum aðeins ein sýning og enn eru fáanlegir miðar á mak.is og tix.is