Fara í efni
Menning

Tónleikar í Hofi til heiðurs Helenu

Tónleikar til heiðurs söngkonunni Helenu Eyjólfsdóttur verða í Hofi á föstudagskvöldið. Helena, sem byrjaði barnung að syngja, varð varð áttræð fyrr á árinu.

„Á tónleikunum ætlum við að rekja feril Helenu bæði í tali og tónum, rifja upp fallegu dægurlagaperlurnar og sögurnar á bak við þær,“ segir Sauðkrækingurinn Hulda Jónasdóttir sem átti hugmyndina að tónleikunum og stendur fyrir þeim. Samskonar tónleikar verða í Salnum í Kópavogi um aðra helgi, uppselt er á þá en fáeinir miðar eru eftir í Hofi.

Valgerður Erlingsdóttir, sögumaður og kynnir, verður á sviðinu allan tímann ásamt Helenu. Þær spjalla á milli laga um ferilinn og sögurnar á bak við lögin.

„Helena hefur staðið á sviðinu í marga áratugi og er fyrir löngu búin að syngja sig inn í hjörtu landsmanna með ógleymanlegum dægurlagaperlum. Á þessum einstöku tónleikum ætlum við að leyfa ykkur að heyra þær og rifa upp bæði í tali og tónum feril Helenu,“ segir Hulda.

Á tónleikunum leikur sex manna hljómsveit undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar og bakraddasveit undir stjórn Húnvetningsins Hrafnhildar Víglundsdóttur. Hulda segir að fjórar frábærar söngkonur munu síðan stíga á svið og flytja lögin en það eru þær Hrafnhildur Ýr, Hreindís Ylva, Kristjana Arngrímsdóttir og Sigurlaug Vordís. Þá eru þeir líka í hópnum Ívar Helgason og Grímur Sigurðsson sem söng og lék með Helenu í hljómsveit Ingimars Eydal til fjölda ára.

Hulda segir vel hafa gengið að velja lögin. „Það gekk bara ljómandi vel við völdum þau í sameiningu ég og Helena og vorum yfirleitt sammála, en hún fékk auðvitað að ráða þessu í lokin og leggja blessun sína yfir þetta enda kann hún þetta.“

Helena verður heiðursgestur tónleikanna og á sviðinu allan tímann, sem fyrr segir. Og hún mun taka lagið, segir Hulda. „Já, svo sannarlega, hún ætlar að taka lagið. Hún og Grímur ætla einnig að rifja upp gamla takta og skella í eina Ingimars Eydal syrpu og svo verður hún auðvita að taka Hvítu mávana fyrir okkur.“