Fara í efni
Menning

Tíu ung tónskáld valin til tónleika Upptaktsins

Sigurvegarar Upptaktsins 2024. Mynd: Menningarfélag Akureyrar

Upptakturinn er árleg keppni í sköpun tónverka fyrir börn og ungmenni. Menningarhúsið Hof stendur fyrir keppninni í samstarfi við Hörpu, en tilgangurinn er að hvetja ungt tónlistarfólk til þess að semja tónlist og hjálpa því að fylgja tónverki sínu á sviðið í flutningi reyndra tónlistarmanna. Tíu sigurvegarar á aldrinum 10-16 ára hafa verið valdir í ár, en á heimasíðu Menningarfélagsins á Akureyri birtist tilkynning um úrslit keppninnar.

Hér má sjá sigurvegarana 10, myndin fylgdi frétt Menningarfélagsins á Facebook.

Krakkarnir hafa þegar hafist handa við að útsetja verk sín með góðri aðstoð Kristjáns Edelstein og Grétu Salome, en verkin verða flutt á tónleikum í Hofi, þann 7. apríl kl. 17.00. Tónleikarnir verða hluti af Barnamenningarhátíð Akureyrarbæjar og verður enginn aðgangseyrir. 

Á hverju ári auglýsa aðstandendur Upptaktsins eftir innsendingum á tónverkum, frá krökkum í 5.-10. bekk í grunnskólum Norðurlands eystra. Verkið skal vera 1-5 mínútna langt og samið fyrir 1-6 hljóðfæraleikara. Verkefnastjóri Upptaktsins er Kristín Sóley Björnsdóttir, starfsmaður MAK.