Fara í efni
Menning

Tilefni – Geggjað að verða sextugur

Listamaðurinn í Mjólkurbúðinni að kvöldlagi í vikunni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Ragnar Hólm opnar málverkasýninguna Tilefni á morgun, laugardag, í Deiglunni og Mjólkurbúðinni. Tilefnið er ærið því þann sama dag, 19. nóvember, verður Ragnar 60 ára. Það er því stórafmæli og stendur mikið til. Akureyri.net hitti Ragnar að máli þegar hann var í óða önn að raða upp nýjum olíumálverkum í Mjólkurbúðinni í Listagilinu.

„Þetta er örugglega svolítið villt sýning,“ segir listamaðurinn og mjakar til stærsta málverki sýningarinnar sem hann kallar Hauströkkrið yfir mér og er 180x140 sm. „Ég hef verið mjög fígúratífur í abstrakt málverkunum en er aðeins að reyna að gerast enn óhlutbundnari, samt sér fólk alltaf einhverjar fígúrur og dótarí í verkunum, jafnvel eitthvað sem ég hafði aldrei komið auga á.“

En hvað varð um allt landslagið sem þú hefur verið svo duglegur við að mála?

„Landslagið hefur aðallega verið í vatnslitamyndunum mínum og ég ákvað að hvíla vatnslitina að þessu sinni, reyna við stærri málverk og sleppa fram af mér beislinu. Það er afar ólíkt að vinna með vatnsliti og olíu en hvort tveggja hefur sinn sjarma og ég mun örugglega hella mér aftur í vatnslitina innan tíðar.“

Þú sagðir mér að málverkið Hauströkkrið yfir mér væri þegar selt. Ertu búinn að selja mikið fyrirfram af því sem þú sýnir um helgina?

„Nei, alls ekki. Þetta stóra málverk var eiginlega málað samkvæmt pöntun, þ.e.a.s. málverk í þessari stærð, en svo fannst mér það bara svo ansi fínt að ég yrði að hafa það með á sýningunni. Svo er búið að panta eitthvað smá í viðbót og mér finnst það í rauninni ekki skipta máli. Málverkasýningin snýst um að sýna málverk eins og nafnið gefur til kynna. Það breytir engu hvort málverkin eru seld eða ekki, hvort þau seldust um leið og þau urðu til, hvort þau seljast um helgina eða bara einhvern tímann seinna.“

Hvernig er að verða sextugur?

„Geggjað!“

  • Þetta er 21. einkasýning Ragnars sem einnig hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.
  • Síðasta rúma áratuginn hefur hann helgað allan sinn frítíma myndlist og sótt námskeið hjá þekktu myndlistarfólki hér heima og erlendis.
  • Vatnslitamyndir Ragnars hafa verið valdar á fjölda samsýninga evrópskra vatnslitamálara. Síðustu árin hefur olíumálverkið orðið æ fyrirferðarmeira í list hans.
  • Sýningin stendur aðeins í tvo daga, laugardag og sunnudag. Opið er báða dagana frá klukkan 14.00 til 17.00.

info@ragnarholm.com
www.ragnarholm.com
https://www.facebook.com/ragnarholm.art/