Fara í efni
Menning

Þrjár sýningar opnaðar á fimmtudagskvöldið

Agnieszka Sosnowska – Gústav Geir Bollason – Auður Lóa Guðnadóttir

Þrjár sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri á fimmtudagskvöldið klukkan 20.00 : Gústav Geir Bollason – Sandtímasálmur um fölnandi jarðarblóm, Auður Lóa Guðnadóttir – Forvera og ljósmyndasamsýningin Svarthvítt. Boðið verður upp á listamannaspjall um Svarthvítt kl. 21 og er stjórnandi Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins.

Í tilkynningu frá Listasafninu segir:

Svarthvítt

Andstæður og ólíkir hlutir, viðhorf og sjónarhorn. Það sem skilur okkur að getur einnig tengt okkur saman. Fimm listamenn sem vinna með svarthvítar ljósmyndir eiga verk á þessari sýningu. Listamennirnir nálgast viðfengsefnin á ólíkan hátt og myndefnin eru einnig margvísleg: landslag, fólk, sögur, staðir og stemning. Andstæður og ógnir, rólegheit og væntumþykja og fjölmargar birtingarmyndir daglegs lífs, ævintýra, menningar, hins óþekkta og þess kunnuglega.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Agnieszka Sosnowska, Christopher Taylor, Katrín Elvarsdóttir, Páll Stefánsson og Spessi. Bakgrunnur þeirra er fjölbreyttur, sem kemur glögglega fram í verkunum. Á sama tíma er margt sem sameinar þau, þegar betur er að gáð.

Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík.

Sandtímasálmur um fölnandi jarðarblóm

Gústav Geir Bollason (f. 1966) fæst við teikningar og tilraunakvikmyndir auk skúlptúrverka. Hann rekur einnig óhefðbundið sýningarými á Hjalteyri við Eyjafjörð.

„Teiknimyndir og lifandi myndir af jurtaleifum, ryki og rusli. Einnig blendingshlutir sem jarðtengjast í hugmynd um mæli- og farartæki, sem og skjól eða holur sem verða til í skemmdu landslagi. Alls staðar er sandurinn, sýnilegur eða ósýnilegur: í steyptum veggjunum, sjóntækjunum, símanum, landfyllingunni. Hreyfingar blómanna í teiknimyndunum verða flöktandi í hröðuninni. Inn á milli mynda; ekkert. Tóm eða fjarvist, andleg.

Í lifandi vídeómyndum birtast gróðurleifar í uppstillingu er hreyfist mishratt í vélrænni hringrás ljóss og skugga þar sem allt líður hjá, hraðar og hraðar, og verður ógreinilegra. Hverfulir svipir í hverfandi tíma og rúmi. Samruni einskis og veruleikans. Skúlptúrar sem hluti af innsetningu lýsa kyrrstöðu. Verkin verða hugleiðing um hið sýnilega: hreyfingu, hröðun, tíma og eyðingu,“ segir Gústav Geir.

Forvera

Auður Lóa Guðnadóttir (f. 1993) er myndlistarmaður sem leikur sér á landamærum hins huglæga og hlutlæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Hún vinnur markvisst með hversdagsfyrirbæri og fígúratíft myndmál sem hún sækir í forna jafnt og nýliðna sögu. Auður Lóa leitast við að virkja sjálf listaverkin, ætíð þó sem fyrirbæri í sínu eigin félagslega umhverfi. Á sýningunni Forvera heldur hún áfram á þeirri braut, en heimilisbúnaður og skrautmunir frá ýmsum tímapunktum sögunnar eru að þessu sinni í brennidepli.

Auður Lóa útskrifaðist af myndlistasviði Listaháskóla Íslands 2015. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt, í samstarfi við aðra listamenn og tekið þátt í sýningum, s.s. Leikfimi í Safnasafninu, Djúpþrýstingur í Nýlistasafninu og Allt á sama tíma í Hafnarborg. Hún hlaut hvatningarverðlaun Myndlistarráðs 2018 fyrir sýninguna Díana, að eilífu sem hún tók þátt í og stýrði. Vorið 2021 opnaði hún sína fyrstu stóru einkasýningu í D-sal Listasafns Reykjavíkur, Já / Nei, sem samanstóð af yfir 100 skúlptúrum úr pappamassa.