Fara í efni
Menning

Þjóðbúningadagur á Safnasafninu – MYNDIR

Ljósmyndir: Bjarney Anna Þórsdóttir

Um síðustu helgi var haldinn þjóðbúningadagur í Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Þetta var gert í tilefni þess að um var að ræða síðasta dag sumarsýninga á safninu.

Fjöldi gesta mætti á staðinn, um 60 manns, sem nutu dagsins og glæsilegra veitinga, þar á meðal konur í búningum frá Dalvík og Sauðárkróki, segir í tilkynningu frá safninu.

Teknar voru ljósmyndir fyrir heimildasöfn og kynningar. Konur sem dreymir um að sauma sér búninga fengu hvatningu til að hefjast handa. Mikil ánægja var með viðburðinn og verður hann jafnvel fastur liður á dagskrá næstu árin, segir þar.

„Vetrarstarfið er þegar hafið, niðurtekt sýninga, pökkun og endursendingar listaverka. Þrjár bækur eru væntanlegar, byggðar á úttektum á safneigninni: Í mannsmynd, Ingvar Ellert Óskarsson og Gígja Guðfinna Thoroddsen. Þá er hafin ítarleg rannsókn á íslenskri alþýðulist eins langt aftur í tímann og hægt verður, en tímabilið 1901-1960 verður fyrst tekið fyrir, með áherslu á listafólk sem skreytti sig, ef fylgjendur safnsins kannast við slíkt þá væri gott að frétta af því.“

Síðan segir: 

„Safnið sendi verk á Sequences XI sem verður á næstum vikum syðra og tekur þátt í nýlegum tvíæringi í Hollandi sem opnar innan tíðar og eru verkin farin frá safninu.

Skráningarvinnan fer í gang eftir nokkrar vikur, síðan frágangur í sölum. Sýningarnar 2024 hafa verið fastsettar, spennandi og nýstárlegar í senn og víkka sjóndeildarhringinn.“