Fara í efni
Menning

Þjóðarópera í Hofi ef af henni verður?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra, kynnti nýtt ráðuneyti í gær – menningar og viðskiptaráðuneyti – og nefndi þá meðal annars þann möguleika að þjóðarópera yrði í Hofi á Akureyri, ef hún yrði sett á laggirnar.

Lilja fór yfir helstu verkefni á kjörtímabilinu og sagði að m.a. ætti að koma málefni þjóðaróperu í farveg. „Spurningin er, ætlum við að hafa þjóðaróperu, til dæmis á Akureyri? Hof – ég nefni það. Við viljum styðja við menningu, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur út um allt land og þetta er ein hugmynd sem við erum að vinna með,“ sagði ráðherrann.

Á síðasta ári lauk störfum nefnd sem skipuð var til þess að meta kosti og galla stofnunar þjóðaróperu í kjölfar setningar nýrra sviðslistalaga. Eftir að nefndin skilaði af sér skýrslu skrifuðu Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, og Eva Hrund Einarsdóttir, formaður stjórnar félagsins, grein þar sem þær sögðu einboðið að fyrirhugaðri þjóðaróperu yrði fundið heimili í menningarhúsinu Hofi.

Smellið hér til að lesa grein Þuríðar og Evu.