„Þetta er gamanverk með tilfinningum“

Leikfélag Akureyrar frumsýnir verkið Elskan, er ég heima? í Samkomuhúsinu laugardagsköldið 11. október. Ilmur Kristjánsdóttir leikstýrir, en verkið er hennar frumraun sem leikstjóri í leikhúsi. Blaðamaður náði tali af Ilmi í vikunni, en allt er að smella saman á sviðinu og það var gott hljóð í leikstjóranum.
Ég vona að fólk labbi út með hlýtt í hjartanu og kannski einhverjar spurningar
„Leikritið fjallar um ungt par sem ákveður að búa í svona fifties veruleika í nútímanum,“ segir Ilmur. „Þau vilja einfalda lífið og minnka áreitið og taka svona heldur djúpt í árinni. Þau fara í raun alla leið með þetta og innrétta heimilið í tíðarandanum og hafa öll smáatriði á hreinu. Það eru kannski margir sem tengja við það, að finna fyrir nostalgíu þegar við hugsum um fortíðina og nú fáum við að sjá það í leikhúsinu, hvernig það myndi spilast út!“
Var allt betra í gamla daga? Hjónakornin Jonni og Gunna eru leikin af Ólafi Ásgeirssyni og Hólmfríði Hafliðadóttur Mynd: LA / Auðunn Níelsson
Kómík og tilfinningar
Glansmyndin um hina fullkomnu fortíð er svo ef til vill svolítið krumpuð eftir allt saman, kemur á daginn í leikritinu. „Það er nú kannski einmitt það sem er grátbroslegt við þetta,“ segir Ilmur. „Þetta er fyndið verk, en þetta er alls ekki farsi eða neitt slíkt. Þetta er gamanverk með tilfinningum. Tilfinningar eru náttúrulega fyndnastar. Við finnum til með með persónunum, við hlæjum að þeim og við hlæjum að okkur sjálfum.“
Í kjarna verksins eru hjónakornin Gunna og Jonni, en það er Gunna sem fær þá hugmynd að fara í tímaflakk með tilveruna. Hún hefur verið að vinna og leggja allt of hart að sér hjá stóru fyrirtæki og er ekki ánægð með lífið. Ilmur telur persónur verksins vera þannig, að leikhúsgestir muni geta tengt við þær. „Við getum tengt við þau öll, hjónin, vinahjónin og ekki síst mömmuna, sem er gömul kvenréttindakona og rauðsokka, sem skilur alls ekki hvað dóttir hennar er að spá!“
Edda Björgvinsdóttir leikur mömmu hennar Gunnu. Myndir: Auðunn Níelsson / LA
Hafði vel hugsað sér að leikstýra
„Ég var alveg búin að senda það út í kosmósið, að ég myndi vilja prófa að leikstýra,“ segir Ilmur. „Ég hef aðeins leikstýrt fyrir sjónvarp, en ekki fyrir sviðið, fyrr en núna. Ég finn alveg að þetta er eitthvað sem mig langar að gera meira af, og var glöð þegar ég fékk símtalið frá Bergi. Ég nýt þess að vera í leikstjórastólnum og fylgjast með leikurunum í sínum hlutverkum - mér finnst þau eiga svo ótrúlega vel heima í þessu.“ Aðspurð hvort hún sé að taka U beygju segist hún samt alls ekki hætt að leika. „Ég elska að vera á sviði!“
Erum öll að leita að skýrleika
„Ég hef svosem ekki alveg áhyggjur af einhverju bakslagi í jafnrétti kynjanna hér á landi, en maður má auðvitað ekki sofna á verðinum,“ segir Ilmur, aðspurð um sína skoðun persónulega á efni leikritsins. „En eins og þetta er kynnt til sögunnar í verkinu, þá skil ég konuna. Hún er föst í einhverri kapítalískri hringiðu að þræla fyrir eitthvað fyrirtæki sem græðir á henni. Af hverju á það að vera eitthvað frelsi? Hún segist vera femínisti og að þessi leið sem hún fer, sé hennar val. Það er erfitt að þræta fyrir það! Maðurinn hennar er efins í byrjun og spyr; er þetta ekki svolítið feðraveldislegt? En það dregur ekki úr henni, þar sem hún ítrekar að þetta sé þeirra val. En maður verður að skilja af hverju maður velur hlutina.“
Hvert einasta smáatriði á heimili Gunnu og Jonna er í takt við tíðaranda sjötta áratugarins. Danssporin líka. Mynd: Auðunn Níelson / LA
„Okkur vantar einhvern tilgang, skírleika og einfaldleika í tilveruna, og erum að reyna að finna einhver svör,“ segir Ilmur.„ Svörin eru kannski ólík en við erum mörg að spyrja okkur þessara spurninga, hvernig við minnkum áreitið á okkur og einföldum lífið. Við upplifum okkur kannski þannig, að við höfum ekki vald á eigin lífi og viljum ná einverri stjórn á því, með einhverjum ráðum. Það er fullkomlega skiljanlegt. Þess vegna held ég að kulnun sé orðin svona algeng.“
„Ég vona að fólk labbi út með hlýtt í hjartanu og kannski einhverjar spurningar og eigin svör, við þessum spurningum,“ segir Ilmur, aðspurð um hvað hún telji að gestir sýningarinnar muni taka með sér heim úr leikhúsinu.
Líður mjög vel á Akureyri
„Við komum hérna í lok ágúst til að hefja æfingar og það er búinn að vera alveg frábær tími,“ segir Ilmur að lokum, en hún og leikararnir sem koma að sunnan hafa búið saman á Akureyri á meðan æfingum stendur. „Þetta er búinn að vera mjög þéttur leikhópur og það hefur verið yndislegt að búa hér. Við erum búin að vera fáránlega heilsusamleg! Borðum hollt og förum í gönguferðir í Kjarnaskógi, upp í Fálkafell eða Gamla, jóga með Eddu Björgvins, sem hún bauð upp á á leikhúsflötinni áður en það varð kalt og allskonar. Við höfum verið dugleg að fara í zumba-tíma hjá Evu Reykjalín í World Class og fólk hefur verið duglegt að bjóða okkur í mat. Við höfum sótt tónleika á Græna og svo er sundlaugin dásamleg.“
Sýningarnar verða 10 talsins, og eru allar komnar í sölu á www.mak.is
Mynd: Auðunn Níelson / LA