Fara í efni
Menning

TÉKK – 100 konur og 1 karl í bleikum október

Í tilefni af bleikum október og árlegri vitundarvakningu um krabbamein hjá konum má sjá gluggainnsetninguna TÉKK, 100 konur og 1 karl í Hafnarstræti 88, húsi sem gjarnan er kallað „Gamli bankinn. Þar í kjallaranum er vinnustofa myndlistarkonunnar Brynju Harðardóttur Tveiten en innsetningin er samstarf hennar og systur hennar Áslaugar sem rekur skrautmuna- og vintage-söluna Fröken Blómfríður.

Tilgangur innsetningarinnar er að minna fólk á mikilvægi þess að þreifa brjóst sín reglulega sem og að þiggja boð þegar þau berast í brjósta- og leghálsskimun. Því fyrr sem krabbamein greinist því meiri líkur eru á lækningu. Innsetningin sýnir hóp skrautstytta, 100 konur og 1 karl og er engin tilviljun. „Á móti hverjum 100 konum sem greinast með brjóstakrabbamein greinist 1 karlmaður. Stytturnar koma úr öllum áttum og eflaust tengja margir við þær, ekki síst frá heimilum fyrri tíma,“ segir Brynja. „Þær eru teknar úr sínu hefðbundna skrautsamhengi, ólíkar, sumar kitch, aðrar klassískar, dramatískar, veðraðar, litlar og stórar en standa þarna í samstöðu og til fyrirmyndar. Rauðmerktar staðfesta þær að þær tékki brjóst sín reglulega.“

Gleymi ekki ískaldri magatilfinningunni

Brynja greindist með brjóstakrabbamein árið 2021. „Haustið 2020 fékk ég boð í brjóstaskimun. Á þessum tíma lágu brjóstaskimanir niðri vegna Covid-19 þannig ég fór ekki í hefðbundið eftirlit þetta haust. Ég hafði ekki áhyggjur en mögulega ýtti þetta við mér að skoða brjóstin mín reglulega. Það var svo milli jóla og nýárs í sturtunni í búningsklefa sundlaugarinnar í Hrísey sem ég fann æxlið,“ segir hún. „Ég var þarna með vinkonu minni og við vorum einar í búningsklefanum. Ég bað hana að finna. Þetta stendur ljóslifandi fyrir hugskotsjónum mínum, tvær naktar konur, önnur að þreifa á brjósti hinnar. Engin erótík heldur grafalvarlegt og náið augnablik þar sem við horfðumst í augu og vinkona mín segir „þetta er hnútur“. Ég gleymi ekki þessari ísköldu magatilfinningu sem fylgdi.“

Óttinn býr undir niðri

„Ég var 49 ára, þekkti brjóst mín vel og vissi að þetta var eitthvað öðruvísi en venjulega. Um miðjan janúar 2021 var ég greind með hraðvaxandi þríneikvætt brjóstakrabbamein og fór í kjölfarið í krefjandi krabbameinsmeðferð. Sem betur fer greindist krabbameinið áður en það náði að dreifa sér, ég er laus við það í dag og er afar þakklát að vera á lífi. Ég viðurkenni að óttinn við endurkomu býr undir niðri en ég skoða brjóstin mín reglulega og er undir eftirliti. Svona lífsreynsla breytir heimsmyndinni og þörfin til að leggja sitt af mörkum knýr á,“ segir Brynja. 

„Með því að taka þátt í bleikum október viljum við systur sýna lit, þakklæti, láta gott af okkur leiða og lífga upp á umhverfið. Innsetninguna má sjá utan frá og við hvetjum fólk að gera sér ferð í Hafnarstrætið. Vinnustofan verður svo opin föstudagskvöldið 6. október frá kl. 17 til kl. 21 og við vonumst til að eiga gott spjall við gesti og gangandi. Stytturnar verða til sölu og mun allur ágóði renna til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.“